Pistill: Gerið hreyfingu að jólahefð

Það er gaman að fara saman í göngutúr í góðu veðri.

Það er gaman að fara saman í göngutúr í góðu veðri. Gott er að gera hreyfingu að jólahefð.

Hátíð ljóss og friðar er á næsta leiti og án efa flestir í óðaönn að undirbúa hátíðahöldin. Flest erum við alin upp við einhverjar hefðir og enn fleiri hafa skapa nýjar hefðir með eigin fjölskyldu.

Við erum jafn ólík og við erum mörg en eitt eigum við þó flest sameiginlegt og það er tilhlökkun til tilbreytingar frá daglegu amstri.

Leggið inn í heilsubankann

Sumir hlakka til þess að hvíla sig og hlaða rafhlöðurnar fyrir næsta ár. Aðrir hlakka til gæðastundanna með sínum nánustu og samverustunda með stórfjölskyldunni. Við skulum þó hafa í huga að það eru margir sem eiga um sárt að binda og jólin erfiður tími. Hefðir breytast og sumum reynist erfitt að halda í þær vegna breyttra aðstæðna á einn eða annan máta.

Hreyfing er alltaf mikilvæg og ekki síst um jólin. Hreyfing úti í náttúrunni hefur umtalsverð jákvæð áhrif á líðan okkar bæði andlega og líkamlega. Hreyfing hefur jákvæð áhrif á tilhlökkun lítilla mola sem geta gleymt stað og stund úti í náttúrunni í leik þegar beðið er eftir jólunum. Hreyfing hefur jákvæð áhrif á heilsubankann og við getum með betri samvisku notið kræsinganna sem í boði eru um jólin.

Góð áhrif á hugsanir

Hreyfing hefur jákvæð áhrif á andlega heilsu og ferskt loft í lungu hefur áhrif á hugsanir okkar. Það er aldrei of seint að skapa jólahefð sem felur í sér hreyfingu. Hefð sem beðið er eftir með eftirvæntingu og börn sem fullorðnir njóta samverunnar. Gönguferð um hverfið þar sem jólaljósin eru skoðuð, sundferð að morgni aðfangadags, gönguferð á jóladag með heitt kakó og smákökur í næsta lund eða kjarr. Síðast en ekki síst er það jú veðrið og snjóalög sem stjórna því hvort skíði, sleðar, skautar, þoturassar og svartir ruslapokar verði nýttir til hins ýtrasta.

Það ættu því allir að huga að því að uppfylla ráðlagðan dagsskammt af hreyfingu – líka um jólin.

Kæru vinir, Gleðilega hátíð og heillaríkt komandi hreyfiár.

 

_______________________

sabína

Höfundur er Sabína St. Halldórsdóttir

M.ed í íþrótta- og heilsufræðum. Hún er höfundur handbókarinnar Færni til framtíðar. Bókin hefur að geyma hugmyndir að því hvernig örva megi hreyfifærni barna úti í nánasta umhverfi. Sabína heldur fyrirlestra, námskeið og ráðgjöf varðandi útikennslu og hreyfifærni barna.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd