Pistill: Gæðastundir fjölskyldunnar

Leiksvæðið á Bifröst

Á meðal þeirra samverustunda sem þið getið sett í jóladagatal er leikur á róluvelli.

Desember er framundan og án efa tilhlökkun í brjóstum margra fyrir því sem framundan er. Aðventan og jólin geta reynst mörgum erfiður tími, ekki síst litla fólkinu sem bíður óþreyjufullt eftir jólunum og fjölskylduhefðunum sem fylgja.

Þrátt fyrir markaðsafl fjölmiðla, auglýsingapésa sem streyma inn um lúguna og súkkulaðidagatöl í verslunum þá eru það alltaf foreldrarnir sem eru fyrirmyndirnar og hafa valið.

Heimatilbúið jóladagatal

Heimatilbúið dagatal sem fjölskyldan býr til í sameiningu má hæglega úfæra vel svo það hafi áhrif á líkamlega, félagslega og andlega heilsu allra í fjölskyldunni, eykur þol ykkar, hreysti og vellíðan.

Dagatalið hefur mikla kosti, meira að segja vinnan við að búa það til. Fínhreyfingar þarf til að búa dagatalið til og gróf- og fínhreyfingar dag hvern við lausn á verkefni dagsins.

Dagatal sem þetta þarf ekki að kosta mikið og jafnvel ekki krónu, hvorki útfærslan né það sem á að gera. Fjölskyldan útfærir dagatalið saman, kemur sér saman um hve oft það er opnað og setur saman sniðugar tillögur sem allir geta tekið þátt í.

Sleðaferð á næsta hól

Sem dæmi um einfaldar og skemmtilegar hugmyndir sem fanga hver um sig alhliða heilsu ykkar er til dæmis sundferð, gönguferð með heitt kakó og piparkökum, snjóhús fyrir kerti, blöndun á matarlit í spreybrúsa til að skreyta, sleðaferð á næsta hól, piparkökuhúsabakstur, náttfatapartý með tilheyrandi heilsu og nammi. Þið getið útbúið gjafamiða á jólapakka og ýmislegt fleira.

Börnin koma oftar en ekki með bestu hugmyndirnar. Það sem gerir jóladagatalið ykkar frábært er að setja í það hugmynd börnin eiga sjálf með öðrum. Það sem mestu máli skiptir er samveran.

_______________________

sabína

Höfundur er Sabína St. Halldórsdóttir

M.ed í íþrótta- og heilsufræðum. Hún er höfundur handbókarinnar Færni til framtíðar. Bók hefur að geyma hugmyndir að því hvernig örva megi hreyfifærni barna úti í nánasta umhverfi. Sabína heldur fyrirlestra, námskeið og ráðgjöf varðandi útikennslu og hreyfifærni barna.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd