Pistill: Frjáls leikur er alvara

haustið

Frjáls leikur barna er lífsnauðsynlegur enda ættu allir foreldrar og forráðmenn barna að kappkosta að skapa börnum daglega tækifæri til að njóta sín í frjálsum leik. Leikur barna úti í náttúrunni eykur líkamlega virkni og eykur hreysti barna umtalsvert. Stór hluti af frjálsum leik barna inniheldur líka mikla líkamlega virkni en líkamleg virkni er einmitt efst á lista yfir ráðleggingar varðandi heilbrigðan lífsstíl til æviloka. Rannsóknir sýna einmitt að heilbrigt uppeldi sem inniheldur mikla hreyfingu eykur líkurnar á að börnin viðhaldi þeim lífsmáta ævina á enda. Því má ætla að hlutverk uppalenda sé að sjá börnum fyrir uppbyggjandi og heilbrigt uppeldi og vera góðar fyrirmyndir í lífinu.

Börnin vilja spreyta sig

Börn eru sköpuð til að hreyfa sig og þau eru á hreyfingu til að rannsaka og upplifa. Með hreyfingunni fá þau verkefni til að leysa, tækifæri til að hafa frá einhverju að segja og útvega sér sjálf upplýsingar um umhverfið sitt og sig sjálf.

Þau efla líkamlegan-, félagslegan- og vitsmunalegan þroska með hreyfingunni. Þau eru óendanlega forvitin og elska að takast á við síbreytileg verkefni og leysa þau. Þau dæma, taka ákvarðanir, reyna á sig og reka sig á, prófa þá valkosti sem þau hafa hverju sinni og láta yfirleitt vaða á endanum.

Stundum uppskera þau strax en oftar en ekki reyna þau sig áfram þar til þau hafa náð markmiðum sínum. Börn reyna aftur og aftur þar til að þau hafa náð öryggi og geta fært reynslu sína yfir í annað samhengi og byggja með því upp færni sína.

Mikilvægt að leika sér

Börn bregst við ytri og innri áreitum, annaðhvort sjálfkrafa eða eftir vandlega íhugun. Það er leið barna til að kanna umhverfi sitt með tilfinningu og skynjun og um leið að skoða sig sjálf í tengslum við það.

Frjáls leikur barna er alvöru mál og ætti aldrei að mæta afgangi í skipulagi dagsins. Býrð þú til tækifæri fyrir frjálsan leik á hverjum degi?

_______________________

sab05

Höfundur er Sabína St. Halldórsdóttir

M.ed í íþrótta- og heilsufræðum. Hún er höfundur handbókarinnar Færni til framtíðar. Bók hefur að geyma hugmyndir að því hvernig örva megi hreyfifærni barna úti í nánasta umhverfi. Sabína heldur fyrirlestra, námskeið og ráðgjöf varðandi útikennslu og hreyfifærni barna.

 

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd