Hrefna Sigurjónsdóttir skrifar:
Haustið er komið og skólarnir farnir af stað aftur. Tómar stílabækur með auðum og sléttum blaðsíðum, hreinar skólatöskur, engin brauðmylsna eða kramdir bananar og börnin spretta á fætur á morgnana – spennt að fara í skólann. Við reynum að mæta tímanlega, áður en bjallan hringir og heitum því að hefja nýtt skólaár af krafti. En oft eigum við það til að leita í gamla farið og áður en við vitum af fara börnin of seint að sofa og mæta á síðustu stundu í skólann. Stílabækur tý
nast, heimavinnan unnin seint og síðar meir. Hvernig getum við farið öðruvísi í gegnum þetta skólaár? Hvernig getum við reynt að láta drauma okkar um bót og betrun rætast?
Frá sólarsamba yfir í vetrarrútínu
Oft getur verið erfitt fyrir börn og foreldra að skipta úr kæruleysislegum takti sumarsins yfir í rútínu vetrarins. Breytingar geta kallað fram streitu, kvíða, áhyggjur og pirring. Börn eiga stundum erfitt með að aðlagast nýjum aðstæðum eins og t.d. nýjum kennurum og þéttri stundatöflu. Stundum tjá börn þessar tilfinningar með þrætugirni, þau rífast oftar við systkini eða draga sig inn í skelina. Foreldrar geta átt erfitt með að halda ró sinni og halda aftur af reiðinni þegar hlutirnir ganga ekki upp. Í stað þess að gera engar breytingar og segja sjálfum sér að svona sé einfaldlega heimilislífið á þessum bæ er hægt að setja sér einföld markmið sem gott er að vinna með. Ef við gerum áætlun er líklegra að okkur takist vel til. Okkur líður betur og þá líður börnunum okkar betur. Með þessu móti getum við hjálpað þeim að ná sínum markmiðum.
FORELDRAFIMMAN
Þá er að vinda sér í markmiðin. Ég ætla að…
- HAFA AUGUN OPIN! Stundum höfum við á tilfinningunni að eitthvað sé að hjá barninu okkar en við gleymum því í amstri dagsins og förum að hugsa um aðra hluti. Ef barnið okkar er ólíkt sjálfu sér þá er það yfirleitt að reyna að gefa eitthvað til kynna. Auðvelt er að leggja þessar áhyggjur til hliðar ef hegðunin er ekki því að meira aðkallandi en standa svo skömmu síðar frammi fyrir neyðarástandi. Ekki leyfa slíkum vandamálum að malla. Opnaðu augun og sýndu því athygli ef barnið virðist sorgmætt, fjarlægt, reitt eða í verra skapi en vanalega. Takið eftir ef barnið rífst oftar við systkini eða vinirnir hætta að koma í heimsókn. Ef barninu líður illa í skólanum er mikilvægt að komast strax að því hvers vegna því áður en við vitum af er kannski hálft ár liðið og eitthvað sem virtist lítilfjörlegt er orðið að vandamáli sem krefst mikillar orku og tíma.
- VERA Í GÓÐU SAMBANDI VIÐ KENNARA BARNSINS. Ef þú hefur áhyggjur af líðan barns í skólanum talaðu þá við umsjónarkennarann eða aðra kennara ef það hentar betur. Kennararnir eru „með okkur í liði“ – okkar markmið er að mennta barnið og sjá til þess að því líði vel. Ef það er einhver vandi sem við kemur kennara er best að koma á fundi til að ræða málin og finna út hvernig vinna má í sátt og samlyndi. Því miður gerist það að foreldrar hafa samband við kennara til að ásaka eða mælast til einhvers í stað þess að segja: „Hvernig getum við leyst þetta saman?“ Áður en farið er til skólastjóra er rétt að staldra við og sjá hvort ekki sé hægt að leysa vandann nær barninu. Ef það er einhver vandi á heimilinu eða innan fjölskyldunnar er best að segja kennaranum frá því áður en barnið lendir í vanda í skólanum, t.d. með frammistöðu eða hegðun. Betra er að halda kennurum upplýstum t.d. ef það eru veikindi í fjölskyldunni, fjárhagsvandi, vandi með systkini barnsins eða annað. Kennarinn getur verið ykkar trúnaðarmaður og flestir kennarar leggja sig fram við að aðstoða barnið og hjálpa því í gegnum erfiða tíma.
- VINNA MEÐ FÉLAGSLEGA HÆFNI. Hjálpaðu barninu þínu að ná árangri bæði með því að aðstoða við námið og félagslega hæfni. Skólinn snýst ekki bara um að fá góðar einkunnir heldur þurfa börn líka að læra að láta sér lynda við aðra og þróa vinskap. Ef barn er hamingjusamt og líður vel í skólanum þá gengur því betur að einbeita sér að náminu. En hvernig förum við að því að efla félagslega hæfni barna?
- Settu reglur og fylgdu þeim eftir.
- Hafðu reglu á matar- og háttatímum til að ýta undir stöðugleika.
- Kenndu barninu þínu að setja sig í spor annarra .
- Hjálpaðu barninu þínu að tjá gremju, vonbrigði og reiði án þess að meiða aðra eða fara í fýlu.
- Settu grunnreglur um hegðun. T.d. er bannað að: meiða, sparka og slá, bíta og ausa svívirðingum yfir aðra. Aðgát skal höfð í nærveru sálar og orðum fylgir ábyrgð.
- HJÁLPA BARNINU AÐ VERA SJÁLFSTÆÐARA. Þegar börn finna að þau hafa þróað nýja hæfni og geta séð meira um sig sjálf þá öðlast þau trú á eigin getu. Við getum hjálpað börnunum okkar að blómstra og verða sjálfsörugg með því að:
- Kenna þeim að: klæða sig, binda skóreimar, útbúa nesti, stilla vekjaraklukkuna og vakna sjálf, ganga frá í skólatöskuna og skipuleggja sig o.fl.
- Leyfa þeim að leysa málin hjálparlaust. Þegar þau verða eldri geta þau fengið sér að borða og gengið frá og einnig þarf með tíð og tíma að treysta þeim fyrir heimavinnunni. Mun eðlilegra er að þú athugir heimavinnuna þegar barnið er búið að reyna sjálft heldur en að sitja yfir því allan tímann og leiðrétta jafnóðum. Einnig ber að hafa í huga að heimaverkefni sem fela t.d. í sér að skrifa sögur, ritdóma eða sýna frumkvæði á einhvern hátt eiga að koma alfarið frá barninu. Þetta er verkefni fyrir barnið, ekki foreldra.
- Láta barnið hjálpa til við húsverkin og öðlast smám saman ábyrgð í stað þess að þjóna því sífellt. Börn geta t.d. sett óhreinan þvott í þvottakörfu, lagt á borð og tekið af því, aðstoðað við að þjóna gestum, bakað og hjálpað til í eldhúsinu og tekið til í herberginu sínu.
- EIGA VIRK SAMSKIPTI VIÐ BARNIÐ. Börnin okkar mega aldrei vera hrædd við að ræða við okkur. Sama hversu stórkostlega þau hafa klúðrað hlutunum þá mega þau aldrei óttast það að foreldrarnir snúi baki við þeim. Ást foreldra þarf að vera skilyrðislaus. Vissulega getur hegðun þeirra haft afleiðingar eða haft í för með sér vonbrigði en þau verða að geta treyst á að við séum til staðar fyrir þau þegar eitthvað bjátar á. Ef þau geta ekki treyst á foreldra sína hverjum geta þau þá treyst? Þetta árið skaltu heita því að vinna í samskiptum við barnið þitt. Hér er átt við dagleg samskipti þar sem þið deilið gleði, góðu spjalli, sögu eða borðið saman. Aðalatriðið er að þú takir alltaf frá tíma og orku þannig að barnið viti að það skipti máli.
- Talaðu við barnið þitt á hverjum degi, jafnvel þó það séu ekki nema nokkrar mínútur. Hér eru unglingarnir ekki undanskildir, síður en svo! Mikilvægt er að vera í virku sambandi við barnið sitt alla tíð.
- Leggðu frá þér símann og slökktu á fartölvunni þegar barnið kemur heim, á matartímum og þegar komið er að háttatíma og sögustund. Sama gildir þegar þú sækir barnið í skólann, ekki tala í símann eða tékka á tölvupóstinum. Horfðu á barnið og myndaðu augnsamband þegar þið talið saman.
- Talaðu við barnið þitt með þeim raddblæ og þeim orðum sem þú vilt að það noti í samskiptum við aðra.
- Sýndu ást þína á hverjum degi, sama hversu erfiður dagurinn hefur verið.
Auðvitað koma dagar sem eru erfiðari en aðrir og óvæntir atburðir lita daginn. Einnig eru sum börn erfiðari en önnur. En með því að reyna að vinna að þessum fimm markmiðum höfum við þó þá vissu innra með okkur að við reyndum að gera okkar besta. Það mun alltaf skila okkur áleiðis. Gangi ykkur vel!
Heimild: Slovei Jungreis-Wolff . „5 Parenting Goals for Every Family“ aish.com 12.10.2012. http://www.aish.com/f/p/5-Parenting-Goals-for-Every-Family.html
Hrefna Sigurjónsdóttir er framkvæmdastjóri Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra.
Pistillinn birtist upphaflega í Tímariti Heimilis og skóla í ágúst 2014.