Pistill: Eru börn heimspekingar?

2015-07-18 12.59.20

Heimspeki með börnum (á ensku oft nefnt Philosophy for Children) er samræðuform sem rutt hefur sér til rúms undanfarna áratugi. Hver sem er getur stýrt heimspekilegri samræðu af þessum toga. Markmið samræðunnar er að taka til umræðu eitthvert áhugavert hugtak og kryfja það til mergjar út frá sjónarhorni hópsins. Innan barnaheimspekinnar nefnist þetta að hugtaka (e. conceptualize), það er að taka eitthvert hugtak fyrir og greina það. Umræðustjórnandinn á ekki að reyna að þvinga fram niðurstöðu heldur leyfa þátttakendum að varpa fram ólíkum skoðunum og hafna eða samþykkja hugmyndir hver annars í sameiningu.

 

Heimspekileg hugsun krefst ögunar

Fyrirbærið sjálft, heimspeki með börnum, getur stundum af sér ákveðna mýtu sem kannski ekki er allskostar sönn, en heldur ekki alröng. Þetta er hugmyndin um að börn séu náttúrulega heimspekilega þenkjandi. Vissulega eru börnum í blóð bornir margir eiginleikar heimspekilegrar hugsunar, svo sem að undrast, spyrja spurninga, tala saman, hlusta og læra. Margt af þessu gerist af sjálfu sér bara þegar þau verða til og vaxa úr grasi í þessum heimi.

En að segja að einhver sé náttúrulega heimspekilega þenkjandi getur verið eilítið villandi, því heimspekileg hugsun krefst ögunar, þjálfunar og markvissrar iðkunar – rétt eins og hver önnur iðja sem einhver ætlar sér að öðlast færni í. Utan þeirra fimm atriða sem ég nefndi hér að ofan felst þessi iðkun í:

  • Að hugsa
  • Að skrifa
  • Að lesa
  • Að hugleiða

Þetta er e.t.v. ekki tæmandi listi, en gefur góða hugmynd um hvers konar æfingar eru vel til þess fallnar að þjálfa og beisla hugsunina. Markmiðið með heimspekilegri iðkun er að temja sér skipulega hugsun sem einkennist af nákvæmni og yfirvegun. Ætla má að fæstir geri þetta af sjálfu sér og án fyrirhafnar.

 

Markviss heimspeki með börnum

Í mörgum skólum er heimspeki kennd eða með öðrum orðum er þar kennari sem markvisst ástundar heimspeki með börnum. Til að þessi þjálfun, það er ástundun heimspekilegrar samræðu, verði sem árangursríkust er mikilvægt að hin heimspekilega iðkun barnsins eigi sér ekki bara stað í samræðuhringnum sem heimspekikennarinn leiðir, heldur þyrfti barnið að ástunda heimspeki öllum stundum. Draga hluti í efa, setja sig í spor annarra, geta skipt um skoðun, krefja viðmælandann svara við óljósum eða hæpnum fullyrðingum og fleira í þeim dúr. Þetta gera börn ekki endilega af sjálfu sér og af náttúrunnar hendi, heldur verður að skapa þeim aðstæður og andrúmsloft til að láta hugarflugið reika og læra að taka ákvarðanir.

 

Gott að vera forvitinn

Hugsun barna mótast frá fæðingu og í hinum ýmsum menntastofnunum læra þau að efla vitsmunaþroska sinn. Þetta kerfi byggir á ákveðnum leikreglum og þessar leikreglur (einfaldar samræðureglur) koma úr leikskóla. Eftir því sem börnin vaxa úr grasi og færast upp um bekki skólakerfisins, læra þau að umgangast þessar leikreglur í flóknari útfærslum, í öllum greinum menntakerfisins. Kannski er þó sérstaða heimspekinnar í stundatöflunni, umfram aðrar greinar, að þar er ekkert rétt og rangt, a.m.k. ekki í víðu samhengi – og allir hafa rödd. Ekki er gengið út frá því að neinn viti best. Heimspekileg spurning, hún vill rannsaka, hún vill forvitnast og undrast. En alveg eins og blóm vex af sjálfu sér, er samt best að rækta það og sinna því af alúð svo það nái að blómstra af fullum krafti.

Væri þá ekki meiriháttar ef við, ekki bara foreldrar heldur allir fullorðnir, gengjum á undan með góðu fordæmi um fróðleiksfýsn – með því að hvetja börn til þátttöku í samræðu og glímu við spurningar sem örva heimspekilega hugsun?

 

Kristian Guttesen.

Höfundur: Kristian Guttesen, heimspekikennari við Landakotsskóla.

Kristian hefur numið heimspeki við Háskóla Íslands og Søren Kierkegaard rannsóknasetrið í Kaupmannahöfn. Hann hefur kennt heimspeki og siðfræði í skólum og m.a. gefið út átta ljóðabækur og eitt ljóðaúrval.

 

 

 

 

 

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd