Pistill: Ert þú að verja tíma eða eyða tíma?

2015-06-06 14.48.07

Ég skil auðvitað tímann mun betur í dag en þegar ég var barn. Í dag skil ég því orð móðir minnar fyrir vikið mun betur. Þegar ég var barn talaði hún oft um mikilvægi þess að verja tímanum vel. Það fór nefnilega fyrir brjóstið á henni þegar tímanum var illa varið. Ég ætla ekki að nefna nein tiltekin dæmi úr æsku, en þessi hugsun um verja tímanum er mér oft mjög hugleikin.

Jákvætt að verja tímanum

Orð skipta jafn miklu máli og samhengið sem við notum þau í. Þótt ég sé hvorki íslenskufræðingur né heimspekingur finnst mér fallegt að tala um að verja tíma með sínum nánustu í stað þess að eyða tíma. Verja er vandaðra orð í þessu samhengi og að mínu mati jákvæðara orð en orðið eyða.

Þegar börn eiga í hlut þá eigum að tala um að verja tíma með þeim, það er dýrmætur tími sem við verjum með þeim og höfum í leiðinni jákvæð áhrif á þroska barna okkar og hugmyndir þeirra um lífið og tilveruna.

Börn meta gæðastundir

Gæðastundir geta haft áhrif á líf barns um ókomna tíð. Barnið skilur kannski ekki virði stundanna sem það fær en lærir að meta gildi þeirra síðar. Gæðastundir hafa nefnilega ótvírætt forvarnargildi. Rannsóknir hafa sýnt að börn sem verja meiri tíma með foreldrum og forráðamönnum eiga síður hættu á því að leiðast út í hverskonar áhættuhegðun.

Ókeypis gæðastundir

Gæðastundir þurfa ekki að kosta krónu og geta farið fram hvar og hvenær sem er. Gæðastundir geta falið í sér samvinnu fjölskyldunnar við heimilishald, sameiginlegar máltíðir án snjalltækja, fjölskylduáhugamál, gönguferð úti í náttúrunni, sundferð í lok vinnudags á föstudegi, sameiginlega tannburstun að kveldi og sófakúr með hollt nammi um helgar.

Það sem mestu máli skiptir er samveran, að vera í núinu og njóta þess að verja tíma með sínum nánustu.

Gæðastundir eru gulls ígildi.

_______________________

sab05

Höfundur er Sabína St. Halldórsdóttir

M.ed í íþrótta- og heilsufræðum. Hún er höfundur handbókarinnar Færni til framtíðar. Bók hefur að geyma hugmyndir að því hvernig örva megi hreyfifærni barna úti í nánasta umhverfi. Sabína heldur fyrirlestra, námskeið og ráðgjöf varðandi útikennslu og hreyfifærni barna.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd