Pistill Hrefnu: Ánægjuleg skólabyrjun

13717976_10157133965440035_301982013_o

Senn flykkjast börn í skóla landsins og hluti þeirra er að stíga sín fyrstu skref á löngum menntavegi. Foreldrar óska þess að börnunum þeirra gangi vel og að skólagangan fari vel af stað. Helsta hlutverk foreldra er að hlusta og styðja við barnið í nýju umhverfi, hjálpa því að skilja og átta sig á öllu því sem fyrir ber. Sýna þarf því skilning að barnið þitt mun nú verða hluti af mikilvægu samfélagi í skólanum.

Raunhæfar væntingar

Mikilvægt er að gera raunhæfar væntingar og gott er að gera ekki of mikið úr því að barnið sé að byrja í skóla. Ef væntingarnar eru miklar getur skólabyrjunin valdið vonbrigðum. Vissulega er spennandi að hefja nám í nýjum skóla á nýju skólastigi og sjálfsagt að leyfa sér að hlakka til en það tekur tíma fyrir barnið að læra, kynnast nýjum skóla og nýju fólki. Þetta kemur allt með kalda vatninu. Á hinn bóginn er einnig gott að vera meðvituð um að barnið getur oft meira en við höldum og það þarf að fá að prófa sig áfram á nýjum vettvangi.

 

Áhyggjur geta smitast yfir á barnið

Sumir foreldrar hafa slæma reynslu af sinni eigin skólagöngu og hafa eðlilega áhyggjur af því hvernig þeirra barni muni koma til með að vegna í skólanum. Þá er mikilvægt að gæta þess að þær áhyggjur færist ekki yfir til barnsins. Þó svo flest börn eigi ánægjulega skólabyrjun þá getur komið bakslag og þá er mikilvægt að vinna úr því í samráði við kennara og skólastarfsmenn. Barnið getur verið kvíðið fyrstu dagana og fundið fyrir spennu eða þreytu. Þá skiptir máli að vera til staðar og veita barninu ró og næði heima fyrir.

Sýnum skilning

Sum börn sakna gamla leikskólans og stundum kemur eitthvað upp á í skólanum sem hefur áhrif á líðan. Þá þurfa foreldrar að gæta þess að bregðast ekki of hart við. Gott er að eiga yfirvegað samtal við barnið og hjálpa því að skilja tilfinningar sínar. Mikilvægt er að sýna börnum skilning og viðurkenna tilfinningar þeirra því hægt er að upplifa hlutina á ýmsan máta. Ef ástæða er til er æskilegt að ræða málin við umsjónarkennara. Börn læra einnig á mismunandi vegu og foreldrar þurfa að finna út hvernig barnið lærir og fær áhuga. Gott er að deila þeim niðurstöðum með kennara barnsins. Einnig skiptir máli að sætta sig við að stundum getur barnið átt erfitt með að læra vissa hluti og þá þurfa foreldrar að aðstoða eftir fremsta megni í samvinnu við skólann.

 

Slökum á

Margir foreldrar eru gríðarlega forvitnir um hvað gerist í skólanum og hvernig barninu líður. Eðlilega, skárra væri það nú! Þó þarf að gæta þess að vera ekki of ýtin þegar kemur að því að forvitnast um skóladaginn. Mörg börn þola ekki þegar foreldrarnir gerast hnýsnir úr hófi fram og þrýsta á að börn gefi skýrslu um daginn. Stundum segja þau einfaldlega það sem þau halda að foreldrarnir vilji heyra. Þetta má þó ekki skilja sem svo að foreldrar eigi að hætta að spyrja um skóladaginn, þvert á móti er sjálfsagt að gera það, en þá skiptir máli að vera jafnt virkur hlustandi sem spyrjandi. Einnig getur verið góð hugmynd að gefa barninu svigrúm til að koma sjálft og segja okkur frá því sem á daga þess hefur drifið. Foreldrar geta einnig deilt sögum af eigin skólagöngu með barninu, þá ýmist ánægjulegum minningum og/eða hvernig þú sigraðist á erfiðleikum á þinni skólagöngu.

 

Tölum saman

Skólinn er samfélag og þar gengur á ýmsu. Lífið þar gengur upp og niður eins og annars staðar. Ef hins vegar koma upp mál sem vinna þarf úr er mikilvægt að ræða þau við kennara eða aðra starfsmenn skóla í stað þess að láta barnið hafa of miklar áhyggjur af málum sem fullorðnir þurfa að leysa. Samstarf um barnið, velferð þess og árangur er mikilvægt. Fullorðnir eru fyrirmyndir og því er brýnt að við vísum þeim veginn, sýnum þeim fjölbreyttar leiðir til náms, kennum jákvæð samskipti og stuðlum að umburðarlyndi og skilningi á samfélaginu.

_______________________

Höfundur er Hrefna Sigurjónsdóttir 

Hrefna er framkvæmdastjóri Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra. 

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd