Stefnir í æsispennandi keppni um flottasta piparkökuhúsið

Hvað er hægt að gera sem er nokkurn vegin venjulegt en verður rosalega skemmtilegt þegar búið er að gera það að risaviðburði? Jú. Íslensku piparkökuheimsmeistarakeppnina (e. The Icelandic World Championship Ginger Cookie Competition).

Keppnin verður haldin 28. desember 2018 í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu á milli klukkan 12:30 til 18:00 af fréttavefnum Niceland í samvinnu við Sigur Rós og hátíð hljómsveitarinnar, Norður og niður.

Keppnin er öllum opin. Fólk er hvatt til að koma með börnin sín til að horfa á keppnina – á staðnum verður sérstakt barnahorn þar sem krakkarnir geta leikið sér að því að byggja piparkökuhús.

 

Hönnuðu piparkökuhús með Disney

Upphafsmaður piparkökukeppninnar er Oliver Luckett. Hann segir í samtali við Fréttablaðið að hugmyndin að keppninni sé frá árinu 2011 þegar hann og maður hans, Scott Guinn komu fyrst til landsins til landsins.

„Þá tókum við þátt í piparkökukeppni sem var haldin af Jóni Gnarr, Björk og fleirum þegar Jón Gnarr var borgarstjóri. Þetta var einhvers konar sambland af afmælisboði, brúðkaupsafmæli og einhverju, ég er ekki alveg viss. Við mættum með risastórt piparkökuhús sem Disney Imagineering hafði aðstoðað okkur við að byggja. Við vorum ansi sigurvissir – en við unnum alls ekki. Við vorum í raun úr leik vegna þess að þeir frá Disney mættu ekki með okkur í keppnina. Björk sagðist skammast sín og flautaði keppnina af.“

Þeir Oliver og Scott fluttu eftir þetta til Íslands og keyptu Kjarvalshúsið svokallaða snemma árs 2016. Þar héldu þeir eigin keppni sem um tuttugu manns tóku þátt í.

Keppendur ráða bakara

Í viðtali við Fréttablaðið segir Oliver Luckett að nú stefni í heljarinnar keppni.

„Í ár stefnir í að keppnin verði tekin ansi alvarlega – við vitum að þeir hjá GAMMA eru búnir að ráða bakara, við erum líka búnir að ráða bakara… við erum að reyna að breyta þessu í eitthvað klikkað. Við erum með fullt af karlmennskuegó- um í samkeppni þarna, það endar alltaf vel. Jólaandinn verður ekki til staðar í þessari keppni.“

Hann bætir við að eftir keppnina sé húsunum rústað vegna þess að það er skemmtilegt.

 

Leyfilegt að byggja hvað sem er

Hann er spurður að því hvort byggja megi hvað sem er.

„Já, það má bara byggja hvað sem er, úr piparkökum – og öðru nammi. Eina skilyrðið er að útveggirnir verði ætir. Byggingarnar eru dæmdar á hönnun, frumleika og síðast en ekki síst bragði – þannig að þú getur ekki sprautað lími yfir allt saman eða bara byggt hús úr Legói og smurt kremi á það.“

Dómarar eru meðlimir Sigur Rósar, tónlistarkonan Peaches en Nonni Gnarr, sonur Jóns, verður sérstakur krakkadómari. Scott Guinn verður kynnir og vonar Oliver að Eliza Reid forsetafrú dæmi keppnina.

 

Allir geta búið til keppni

Það er frábær hugmynd að búa til keppni um flottasta piparkökuhúsið. Það er lítið mál. Það eina sem þarf að gera er að segja fólki að það verður keppni, hvaða reglum keppendur verða að fylgja og drífa sig í að búa til keppni.

 

Uppskrift að piparköku

Það er gaman að baka piparkökur, sérstaklega fyrir jólin. Baksturinn getur líka orðið að skemmtilegri samverustund fyrir alla fjölskylduna. Þú getur meira að segja bætt piparkökubakstri við samverudagatal fjölskyldunnar. Ertu búinn að lesa þér til um það hvernig þú getur búið til samverudagatal?

Hér er líka uppskrift að piparkökum úr smiðju Evu Laufeyjar Kjaran.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd