Pálína Ósk: Alveg jafn gaman fyrir foreldra og börn að hlaupa í útileikjum

Þær Pálína Ósk Hraundal og fjalla- og útivistargarpurinn Vilborg Arna Gissurardóttir hafa skrifað bókina Útilífsbók fjölskyldunnar. Þetta er ómissandi bók fyrir fjölskyldur sem vilja leika sér saman úti en í bókinni er að finna gagnlegar upplýsingar um skemmtilega upplifun í náttúrunni, hvaða holla og góða nesti er gott að hafa með í ferðalagið og ýmislegt fleira.

Pálína Ósk er ferðamálafræðingur og býr í Ósló í Noregi með fjölskyldu sinni.

Við höfum áður skrifað um fjölskyldu Pálínu og sögðum frá því að hún fari stundum með pönnukökudeig í flösku og steiki pönnsur á prímus á ferðalögum fjölskyldunnar.

Lestu hér um útiveru Pálínu og pönnukökur á prímus.

Pálínu finnst gaman að fara út í náttúruna með fjölskyldunni.

En hvað finnst Pálínu sjálfri gaman að gera með fjölskyldunni?

Við spurðum hana nokkurra spurninga.

Stundar fjölskyldan þín mikla útiveru?

„Já við gerum það mjög markvisst. Við unnum að verkefni saman fjölskyldan árið 2015 að stunda 123 útistundir með mismunandi markmiðum yfir allt árið. Það var mjög lærdómsríkt og skemmtilegt ár.  Eftir það  varð útiveran góð venja heimilisins og við reynum að taka markvisst þátt með því til dæmis að fara í útileiki saman með 12 ára dóttir okkar og hennar vinum, elda saman á prímus eða báli, föndra úr hráefni náttúrunnar og svo lengi mætti telja.  Ég held að það skipti gríðalega miklu máli í nútímasamfélagi þar sem tíminn er mikilvægur að allir taki þátt og eru með ! Það er alveg jafn gaman fyrir okkur foreldrana að hlaupa um í útileikjum og fyrir börnin. Minningar verða margar og skemmtilegar fyrir vikið!“

Hvað finnst ykkur gaman að gera?

„Okkur finnst mjög skemmtilegt að fara í gönguferðir með einhverju þema. Skoða ákveðin dýr, plöntur og/eða svæði. Einnig elskum við að borða góðan mat í náttúrunni og steikjum okkur oft lummur yfir primus eða eldum eplaköku á báli yfir veturinn. Allt eftir stuði og stemningu.“

Hefurðu alltaf verið útimanneskja?

Já, en ekki svona mikið samt. Áhugi minn hefur aukist rosalega síðastliðin 15 ár. Í dag á útilífið nánast hug minn allan.“

Varstu mikið í ferðalögum úti eða stundaðirðu útivist með foreldrum þínum?

„Já, fyrsta ferðalagið var oftast í kringum Hvítasunnu og svo var farið í ferðalög nánast allt sumarið. Ég er þessum ferðalögum óendanlega þakklát í dag. Því þekking mín á Íslandi kom mjög mikið út af þessum ferðalögum í æsku.“

Hvað fannst þér skemmtilegast að gera í æsku?

Leika í fjöru, ég elskaði allt sem tengdist fjörunni og sjónum.“

Af hverju ákváðuð þið að skrifa Útilífsbók fjölskyldunnar?

Við Vilborg Arna höfum báðar ótrúlega mikla ástríðu fyrir útivist og því fannst okkur kjörið að koma saman og skrifa bók út frá öllum hugmyndum okkar og þekkingu á þessu sviði.“

Hvað getur fjölskyldufólk lært af bókinni?

Fjölskyldufólk getur aðallega fengið hugmyndir og innblástur. En bókin er troðin af hugmyndum fyrir útilíf allan ársins hring.“

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd