Tangósýning í verksmiðju? Hljómar það ekki svolítið undarlega? Verksmiðjan á Hjalteyri er gömul síldarverksmiðja sem nú hefur öðlast nýtt líf og hýsir nú list af ýmsu tagi. Laugardaginn 26. september stendur Tónlistarfélag Akureyrar og Dansskóli Önnu Breiðfjörð fyrir tangósýningu í Verksmiðjunni.
Í fréttatilkynningu frá Tónlistarfélaginu segir:
Laugardaginn 26. september kl 14 verður tangósýning í Verksmiðjunni á Hjalteyri. Það er
Tónlistarfélag Akureyrar sem stendur að þessum viðburði í samvinnu við Dansskóla Önnu
Breiðfjörð og Verksmiðjuna á Hjalteyri. Sóknaráætlun Norðurlands Eystra er aðal
styrktaraðili.
Tangósveit Tónlistarfélags Akureyrar leikur lifandi tangótónlist, m.a. útsetningar Albertos
Carmona.
Dansarar frá Dansskóla Önnu Breiðfjörð dansa ýmsa tangódansa í anda tónlistarinnar.
Þetta er jafnframt síðasta sýningarhelgi í Verksmiðjunni á Hjalteyri á sýningu Heklu Bjartrar
Helgadóttur, Salt Vatn Skæri: Hlý eyja.
Sjá nánar í viðburðadagatalinu.
Tangósýning, kaffi og dorgað á bryggjunni
Í Verksmiðjunni og á Hjalteyri er ýmislegt fleira í boði því þar er hægt að sjá listsýningar og þiggja kaffiveitingar. Og ef veðrið er gott má rölta um svæðið og jafnvel dorga á bryggjunni. Það er tilvalið fyrir fjölskyldur á Akureyri, Dalvík eða nágrenni að fá sér bíltúr útá Hjalteyri.