Norræna húsið er sannkallaður ævintýraheimur fyrir bæði börn og fullorðna. Það var opnað árið 1968. Þetta er stofnun sem á að stuðla að samvinnu og efla tengsl Íslands og hinna Norðurlandanna. Finnski arkitektinn Alvar Aalto hannaði húsið og er það mjög í hans anda, svolítið öðruvísi en passar vel inn í Vatnsmýrina.
Fram að þessu hefur Norræna húsið skipulagt og haft frumkvæði af margvíslegum menningarviðburðum og sýningum.
Vatnsmýrin er líka alveg frábær.
Allskonar flottar sýningar
Norræna húsið er bæði bakhjarl og þátttakandi í helstu menningarviðburðum Íslands s.s Kvikmyndahátíð í Reykjavík, Bókmenntahátíð Reykjavíkur, Iceland Airwaves, Listahátíð Reykjavíkur og Norræna tískutvíæringnum en Norræna húsið átti frumkvæðið að þeim viðburði.
Margir fóru líka á sýninguna um Línu langsokk sem sett var upp í tilefni af 70 ára afmælinu hennar. Þetta var flott sýning þar sem eldhúsið hennar Línu var sett upp í kjallara Norræna hússins ásamt alls konar hlutum sem tengdust henni.
Dularfullur Barnahellir og kúruhorn
Á bókasafni Norræna hússins er að finna bækur og blöð frá Norðurlöndunum. Þar er einnig hægt að fá lánaðar hljóðbækur og DVD myndir og hlaða niður rafbókum í gegnum heimasíðu safnsins. Í safninu er einnig Artótek með grafíkmyndum eftir norræna listamenn, sem hægt er að fá að láni. Barnahellir í bókasafninu er algjört kúruhorn enda sérsniðinn að þörfum yngri kynslóðarinnar og fjölskyldum þeirra. Leiðin niður í Barnahellinn er svolítið dularfull en mjög skemmtileg.
Í Norræna húsinu stendur þessa dagana yfir sýningin Öld barnsins en það er umfangsmikil sýning á norrænni hönnun fyrir börn frá upphafi 20. aldar og til nýjustu hluta.
Það er semsagt alveg helling hægt að gera í Norræna húsinu.
En þetta er ekki búið.
Ókeypis listasmiðja fyrir börn
Þriðjudaginn 13. september mun grænlenska listakonan Karen Thastum stýra listasmiðju fyrir börn. Smiðjan er undirbúningur fyrir margmiðlunarverkefnið ANERSAAQ heimsækir Norræna húsið dagana 13.-14. september.
Hér má sjá sambærilegt verk Karenar.
Við ætluðum auðvitað að heyra í Karen um verkefnið og listasmiðjuna en tókst ekki. Við reynum aftur síðar. Við höfðum þess vegna samband við Norræna húsið og fengum þær upplýsingar að í listasmiðjunni muni börnin búa til glærur sem verða hluti af margmiðlunarverkefninu. Karen mun síðan varpa myndunum á glærunum á Norræna húsið um kvöldið.
Þetta verður heljarinnar sjónarspil.
Listasmiðjan er hugsuð fyrir 8-14 ára börn og ungmenni og er ókeypis að taka þátt í henni.
Nú er bara um að gera og mæta klukkan 17 í Norræna húsið þriðjudaginn 13. september. Gert er ráð fyrir því að listasmiðjan standi til klukkan 18:30 og verður myndunum varpað á Norræna húsið um kvöldið.
Norræna húsið er opið alla daga vikunnar og um og almennt enginn aðgangseyrir að neinum viðburðum sem Norræna húsið sjálft stendur fyrir. Á virkum dögum er opið frá klukkan 9-17 en um helgar frá 12 til 17. Bókasafnið opnar svo klukkan 11 á virkum dögum en 12 um helgar.
Þið getið alltaf fundið eitthvað skemmtilegt á vegum Norræna hússins í viðburðadagatali Úllendúllen.