
„Ég held að fólk hafi ekki áttað sig á því að söfnin opnuðu í dag. En fólk langar líklega mest að fara í klippingu. Það hefur verið rólegt í dag en ég býst við að það komi til okkar nær helginni,‟ segir Eva Dagbjört hjá Ásmundarsafni.
Safnið eins og önnur safnhús Listasafns Reykjavíkur hefur verið lokað undanfarnar sex vikur. Það opnaði klukkan 10 í morgun, mánudaginn 4. mars þegar samkomubanni var aflétt að hluta og fjöldamörk hækkuð úr 20 í 50 manns.
Safnhús Listasafns Reykjavíkur eru auk Ásmundarsafns, Kjarvalsstaðir og Hafnarhúsið í Reykjavík.
Í tilefni af afléttingunni verður frítt á söfnin út vikuna og til 10. maí.
Að sama skapi verður komið til móts við fastagesti safnsins sem eiga árskort og menningarkort en þau hafa verið framlengd um sex vikur.
Börn mega klifra í styttum
Alls eru 8 sýningar í gangi í húsunum þremur. Í Hafnarhúsi eru það Sol LeWitt, Erró: Sæborg, Röð og regla og sýning Andreas Brunner í D-sal, Ekki brotlent enn. Í Ásmundarsafni eru sýningar á verkum Ásmundar Sveinssonar; Undir sama himni og Ásmundur fyrir fjölskyldur. Á Kjarvalsstöðum gefur að líta tvær sýningar, Kjarval: Að utan og Ásgerður Búadóttir: Lífsfletir.
Eva Dagbjört segir Listasafn Ásmundar Sveinssonar afar fjölskylduvænt og komi þangað margar fjölskyldur og skólahópar.
Algengt er að sjá börn leika sér í styttunum í garðinum en listamaðurinn gerði stytturnar fyrir börn til að leika sér í.
Fjölskyldufjör er á safninu og geta börn komið þangað með foreldrum sínum og gert ýmislegt skemmtilegt þar, fræðst um list Ásmundar, lært að búa til rok, raðað upp orðum í höfðaletri, reynt að ráða leyniletrið á sveinsstykki Ásmundar og setið á grjónapúða og hlustað á sögur um sagnaheim verka Ásmundar.
Söfn Listasafns Reykjavíkur eru opin frá klukkan 10:00-17:00 alla daga í sumar.
Meira um Ásmundarsafn og Listasafn Reykjavíkur
