Gunnar Helgason: Nú sláum við heimsmet í lestri

„Nú ætlum við að slá heimsmet í lestri. Það er sárabót í stað þess að vinna Júróvisjón,‟ segir stuðboltinn Gunnar Helgason, rithöfundur og leikari. Hann er líka talsmaður lestrarverkefnisins Tími til að lesa sem hleypt var af stokkunum í dag.

Markmið verkefnisins er að hvetja fólk til að lesa sem mest það má og skrá niður hvað það les mikið á hverjum degi.  Verkefnið stendur til 30. apríl og er stefnt á að fá niðurstöðu átaksins skráða í Heimsmetabók Guinness. Gangi það eftir verður þetta í fyrsta sinn sem lestrarátak kemst í heimsmetabókina. Vonast er til að metið geti hlaupið öðrum kapp í kinn og orðið viðmið annarra þjóða. Nú eða allra þeirra sem taka þátt í því og fara að lesa meira að því loknum.

Gunnar segir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, vera driffjöður verkefnisins.

„Lilja hafði samband við mig, Menntamálastofnun og fleiri til að ýta þessu úr vör. Niðurstaðan varð vefsíðan timitiladlesa.is en þar getur fólk skráð inn lestur sinn, séð aðra hvetja til lesturs og mæla með bókum og ýmsum lestrarráðum. Vefurinn verður í stöðugri þróun þar til verkefninu lýkur og við munum bæta allskonar efni við eftir því sem tímanum líður,‟ segir Gunnar.

Allir geta tekið þátt í því að setja heimsmetið, fullorðnir og börn, afar og ömmur og fólk sem á engin börn og allir sem tala öll heimsins tungumál.  

„Ef mamma eða pabbi lesa fyrir þig þá geta þau skráð sínar mínútur og þú og börnin,‟ segir Gunnar en bætir við að líka er hægt að skrá niður hlustun á hljóðbókum.

Á vefsíðunni timitiladlesa.is getur þjóðin séð í rauntíma hver staðan er á hverjum degi og fylgst með heimsmetinu verða til í beinni.

Eins og sjá má eru landsmenn búnir að lesa í rúmar 68.000 mínútur á innan við sólarhring.

Hálftími á dag kemur heilanum í lag!

Gunnar þekkja auðvitað flestir sem hinn helminginn af Gunna og Felix. Hann hefur líka skrifað alveg mýgrút af bókum eins og fótboltabækurnar Aukaspyrnu á Akureyri, Rangstæðan í Reykjavík þar á meðal og síðast bækurnar um Ömmu best, Pabba prófessor og Sigga sítrónu. Hann fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bókina Mamma klikk árið 2016.

En hvað les sískrifandi rithöfundur og fjölskylda hans?

„Það er mjög góð spurning! Við erum öll að skrifa svo mikið á heimilinu, leikrit og bækur. En ætli ég lesi ekki mest, hálftíma á dag uppi í rúmi,‟ svarar hann og leggur áherslu á að hálftími skipti miklu máli.

Svo má ekki gleyma myllumerkinu fyrir samfélagsmiðla:

#timitiladlesa

Það sýni niðurstöður breskrar lestrarkönnunar, að yndislestur sköpum þegar kemur að orðaforða barna og hvernig þeim vegnar í framtíðinni. Rannsóknin leiddi í ljós að lesi barn í 15 mínútur á dag alla grunnskólagöngu sína þá komist það í tæri við 1,5 milljónir orða. Lesi barnið í hálftíma komist það í tæri við 13,7 milljónir orða á meðan grunnskólagöngu varir.

„Þetta sýnir að það skiptir rosalega miklu máli að efla orðaforða barna snemma. Það gerist auðvitað með tvennum hætti, að tala við börnin, lesa fyrir þau og með þeim og láta þau lesa. En það sem könnunin svo sýnir er auðvitað að hálftími á dag kemur heilanum í lag!‟ gellur í Gunnari Helgasyni.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd