Mjólkurhvalir syngja fyrir einmana hval

Melkorka Milkywhale52 hertza hvalurinn er einstakur – því eins og nafnið gefur til kynna þá syngur hún á 52 hertza bylgjulengd, en aðrir hvalir af sömu tegund syngja allir á 12-25 hertzum – og því ekkert víst að aðrir hvalir heyri í henni. En á Menningarnótt ætlar hljómsveitin Milkywhale að gera tilraun til þess að ná sambandi við þennan einmana hval.

„Við lásum grein í útlensku blaði sem fjallaði um einmana hval sem enginn heyrði í af því að röddin hans væri svo sérstök. Okkur fannst svo leiðinlegt að heyra að hann ætti enga vini svo okkur langaði að bjóða honum í heimsókn til Íslands og vita hvort hann vilji verða vinur okkar,“ segir Melkorka Sigríður Magnúsdóttir. Hún er í hljómsveitinni Milkywhale ásamt honum Árna Rúnari Hlöðverssyni, og þau ætla að halda tónleika um borð í hvalaskoðunarskipinu Lilju, þar sem ætlunin er að finna þennan einmana hval og svara kalli hans á Menningarnótt

Tilraunin fer fram á laugardag klukkan 17.30 og svo aftur klukkan 18.50.

 

Meginstraumur eða golfstraumur?

En hvernig tónlist ætla þau að flytja fyrir hvalinn?

„Tónlistin okkar er algjör gleði og danstónlist sem allir ættu að geta dillað sér við, bæði hvalir og menn! Við búum nefnilega bara til lög sem okkur finnst skemmtileg. Í augnablikinu eru það diskó og popplög og meira að segja líka smá rapp! Textarnir okkar eru um hvíta hvali, trampolín-æfingar, ástina og mikilvægi þess að bera alltaf á sig sólarvörn. Svo syngjum við líka um hvernig það er að fljóta með meginstraumnum en ekki golfstraumnum. Annars erum við líka að æfa okkur í að framkalla nokkur hvalahljóð og sjá hvort fleiri hvalir komi jafnvel og syngi með!“ svarar Melkorka og er bjartsýn á að ná sambandi við hvalinn.

„Síðast þegar við heyrðum af hvalnum þá var hann að busla við strendur Írlands. Sagan segir að hann hafi fengið veður af mjólkurhval sem syngi á sömu bylgjulengd og hann og sé núna á leiðinni á Faxaflóamið. Við erum ágætlega bjartsýn á að ná sambandi enda erum við með sérhannaða hvalatónlist fyrir sjaldséða einmana hvali.“

 

Eins árs Mjólkurhvalur

Það veit enginn hvað hvalurinn einmana heitir, en hvernig fékk hljómsveitin þetta hvalslega nafn?

„Milkywhale er nafnaleikur. Ég heiti Melkorka sem skiptist í Melk (mjólk) og orka sem þýðir háhyrningur. Þannig varð hugmyndin um mjólkurhvalinn til. Ég spurði síðan uppáhalds tónlistarmanninn minn hann Árna Rúnar hvort hann vildi vera með í sýningu sem væri bæði dansverk og tónleikar. Hann var sko meira en til í það og síðan þá hefur Mjólkurhvalurinn vaxið og dafnað og er einmitt eins árs í ágúst!“

Þannig að hvalaskoðunarferðartónleikarnir eru eiginlega hálfgerð afmælisveisla líka. Og svo framarlega sem þið mætið snemma getið þið tekið þátt í veislunni, Lilja tekur 196 manns og gestum er hleypt um borð á meðan bátsrúm leyfir. Þetta er allt ókeypis og farnar verða tvær ferðir, klukkan 17.30 og 18.50. Munið svo bara að klæða ykkur vel, því það getur orðið kaldara úti á sjó en uppi á landi.

 

Hvað ætlið þið að gera á Menningarnótt 2016?

Við tókum saman áhugaverða viðburði á Menningarnótt sem hentar fyrir alla fjölskylduna. Smellið og skoðið Menningarnótt.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd