Mikið um að vera á Sjómannadaginn 2017

 

Til hamingju með daginn sjómenn!

Sjómannadagurinn er í dag, sunnudaginn 11. júní. Hann er alltaf haldinn fyrsta sunnudag á hverju ári nema þegar hvítasunnu ber upp á sama dag. Þá er hann næsta sunnudag á eftir eins og nú.

Haldið var fyrst upp á Sjómannadaginn 6. júní árið 1938 í Reykjavík og á Ísafirði. Hann er nú haldinn um allt land og er mikið um að vera í flestum plássum.

Sjómannadagurinn er dagur sjómanna, sem þurftu á árum áður að þola heilmiklar raunir enda var sjómennskan langt í frá sældarlíf.

 

Hvað er í boði á Sjómannadaginn?

Haldið er upp á Sjómannadaginn í helstu hafnarbæjum landsins.

Í Reykjavík hefur Sjómannadagurinn verið tengd við Hátíð hafsins. Hátíðin er haldin laugardaginn 10. júní. Það er fjölskylduhátíð þar lögð er áhersla á fróðleik um hafið og matarmenningu hafsins. Hátíðahöldin halda áfram á Sjómannadaginn með alls konar húllumhæi. Fjölskylduhátíð verður hjá HB Granda og margt fleira.

Skoðaðu dagskránna á Hátíð hafsins

Á Akureyri og í Hrísey er haldið upp á daginn með hátíðarhöldum. Meðal annars leggja Húni II og, Ambassador og Hafsúlan úr höfn frá Torfunesbryggju og sigla dulítinn hring. Ekkert kostar í ferðirnar og eru allir komnir.

Í Hrísey er víðavangshlaup og heilmikil hátíðarhöld

Á Djúpavogi verður dorgkeppni og boðið upp á siglingar á tryllum og bátum.

Sjómannadagurinn er stórviðburður í Fjarðabyggð. Dagskráin í Neskaupstað, Fáskrúðsfirði og Eskifirði er svakaleg. Þar er boðið upp á sundlaugarpartý, dorgveiðikeppni og margt meira skemmtilegt.

Í Ólafsfirði verður skrúðganga. Á fjölskylduskemmtun við Tjarnaborg koma fram Jónsi í Svörtum fötum, Sveppi, Pétur Jóhann, Steindi Jr og Auddi Blö.

Í Bolungarvík er líka mikið um að vera.

Það er alltof of langt mál að telja upp alla staðina þar sem haldið er upp á Sjómannadaginn. Við mælum með því að þið kannið dagskránna á þeim stað sem þið eruð stödd á eða viljið heimsækja á Sjómannadaginn.

Góða skemmtun!

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd