Menningarnótt verður haldin núna á laugardaginn. Heil 20 ár eru liðin síðan Menningarnótt var haldin í fyrsta sinn. Hátíðin hefur sprungið út í gegnum tíðina og er nú orðin heljarinnar fjölskylduhátíð. Við á Úllendúllen skoðuðum dagskrána og fundum ýmislegt sem krakkar gætu haft gaman af.
Vöfflukaffi útum allt
Ef þið verðið komin snemma niðrí bæ, þá getið þið farið í vöfflukaffi í Kaolin Keramik Gallerí (kl. 11:00-12:30). Þar verður líka boðið upp á blóm í skiptum fyrir bros.
Vöfflur eru líka í boði í Þingholtunum seinna um daginn eða á milli kl. 14:00-16:00 þegar íbúar fleiri húsa opna þau fyrir vöfflusvanga gesti Menningarnætur.
Þar getið þið kíkt inn og fengið ykkur bita í Óðinsgötu 8b, Grettisgötu 30, Þingholtsstræti 27, Njálsgötu 25, Njálsgötu 30, Hellusundi 3, Ingólfsstræti 19, Bjargarstíg 17, Freyjugötu 28, Laufásvegi 20 og Laufásvegi 22.
Einmana hvalir, geirfuglar og eldsmiðir
Þið sem hafið áhuga á skemmtilegum dýrum getið farið í hvalaskoðunarferð með hljómsveitinni Milkywhale, en sveitin ætlar að fara og hitta einmana hval, sem syngur á annari tíðni en allir aðrir hvalir.
Á meðan aðrir hvalir af sömu tegund tjá sig á bilinu 12-25hz, syngur hún á 52hz. Og það er vandamálið, engir aðrir hvalir heyra í henni. Söng hennar er ekki svarað. En það mun breytast þegar popphljómsveitin Milkywhale efnir til tónleika um borð í hvalaskoðunarskipinu Lilju, þar sem ætlunin er að finna þennan einmana hval og svara kalli hans. Báturinn tekur 196 manns og gestum er hleypt um borð á meðan bátsrúm leyfir, en báturinn leggur af stað klukkan 17:30.
Svo verður listasmiðja í Safnhúsinu við Hverfisgötu þar sem hægt verður að búa til geirfuglagrímur (kl. 15:00-17:00) og á horni Aðalstrætis og Vesturgötu verður hægt að fylgjast með eldsmiðum af öllu landinu að störfum – og jafnvel panta fallega gripi (kl. 14:00-22:00).
Ratleikir og myndlist
Það er nóg um að vera í Gallerí Fold við Rauðarárstíg fyrir listhneigða krakka. Þar verður ratleikur tengdur listaverkum og auk þess verða listaverk eftir listamanninn Odee falin í miðborginni og þeir sem finna þau mega eiga þau – og geta jafnvel fengið þau árituð.
Ef einhvern í fjölskyldunni langar svo að taka mynd eða vera á mynd þá er bæði ókeypis barnamyndataka á flottum svart-hvítum ljósmyndum og svo er ljósmyndasamkeppni þar sem þið getið tekið mynd í eða við Gallerí Fold, þar sem uppáhaldsverk einhvers í fjölskyldunni kemur við sögu.
Þið sendið svo myndina á á Instagram og merkið #gallerifold. Veitt verða verðlaun fyrir listrænustu myndina, fyndnustu myndina og bestu myndina.
Kappakstursbílar, mótorhjól og hjólastóladiskó
Hafið þið kannski brennandi áhuga á bílum eða hjólum eða öðrum farartækjum? Þá er nóg um að vera á Menningarnótt.
Það er hægt að koma við á Norðurbyggjunni við Hörpu og fylgjast með verkfræðinemum sem vinna að því að þróa, hanna og smíða eins manns rafmagnsknúinn kappakstursbíl frá grunni (kl. 12.30-19:00). Svo er hægt að fara niður að Alþingi og fá að vera farþegi á Harley Davidson mótorhjóli stutta ferð í gegnum miðborgina (kl. 14:00-16:30). Rúnturinn kostar þúsundkall og renna allir þessir þúsundkallar til Umhyggju, sem er félag til styrktar langveikum börnum.
Ef ykkur vantar svo fallegan reiðhjólahjálm þá getið þið komið við í Reiðhjólaversluninni Berlín og skoðað tólf myndskreytta reiðhjólahjálma sem teiknarar á staðnum hafa myndskreytt. Hjálmarnir verða svo boðnir upp og allur ágóði rennur til Barnaheilla (kl. 15:00-18:00). Loks verður hjólastóladiskórokk í Listasafni Reykjavíkur (kl. 19:00-21:00) og öllum sem vilja fá að prófa að dansa í hjólastól.
Kortasýning, bátagerð og ungverskt föndur
Ef einhver í fjölskyldunni á pennavinni þá er tilvalið að kíkja í Þjóðminjasafnið. Þar stendur yfir sýning á póstkortum sem nær alveg frá árinu 1898 til dagsins í dag. Í tengslum við sýninguna getið þið fengið að myndskreyta póstkort og sent þau á staðnum. Í smiðjunni er líka gott úrval af skrýtnum og skemmtilegum póstkortum til að skrifa á og senda.
Á Sjónminjasafninu verður hægt að setja saman sinn eigin bát (kl. 13:00-15:00) og í Hörpu verður boðið upp á ungverskt föndur (kl. 13:00-16:30).
Húllahringir, skátaskemmtun og völundarhús
Fyrir þá sem langar að hreyfa sig þá mætir Húlladúllan á Þjóðminjasafnið og eftir smá húllasýningu þá fá þátttakendur að húlla, en húllahringir af ýmsum gerðum verða í boði (kl 15:00-16:00). Húlladúllan húllar svo áfram á Óðinstorgi (16.30-18:30) og aðstoðar fólk í að húlla betur.
Í Hljómskálagarðinum sjá skátarnir um þrautir og leiktæki (13:30-17:10) og svo er hægt að fara niður að Granda við Mýrargötu. Þar verður hægt að fara í völundarhús Asks Yggdrasils. Völundarhúsið er undarlegt en heillandi rými, sem er lauslega byggt á norrænni goðafræði. Uppákomur munu þar eiga sér stað og karakterar birtast annað slagið yfir daginn
Það er alveg þess virði að taka sér tíma í að skoða völundarhúsið – eða villast í því – nú eða koma nokkrum sinnum á milli klukkan 12:00-20:00.
Töfranótt og villuhrafn

Ævintýrið Heyrðu villuhrafninn mig er hljóðsaga um ævintýrin sem Fía frænka og besti vinur hennar Dúddi lenda í. Einnig koma við sögu Villuhrafninn, dvergurinn Bokki og leiðindaskjóðan Bárðarbunga – og alls konar ný hljóð, íslenskar þulur og lög. Verkið verður sýnt í Hörpu á milli 16:15 og 16:45. Stuttu seinna verður svo Óperuakademía unga fólksins með sýningu í Hörpu sem heitir Töfranótt. Þar finnur barn harðlokaða galdrabók og töfrarnir sleppa út (kl. 17:00-18:00).
Búningar og ýsubein
Ef ykkur finnst gaman að klæða þig upp þá er hægt að klæða sig uppí skemmtilega búninga úr geymslum Borgarleikhússins í Ljósmyndasafninu í Reykjavík og látið taka mynd af sér (kl. 13:00-18:00). Þetta er árviss viðburður sem mörgum finnst alveg stórskemmtilegur og mæta ár eftir ár.
Svo verður líka hægt að klæða sig upp sem víkingur á Landnámssýningunni (kl. 17:00-22:00). Þar verður líka hægt að læra að tálga leikföng úr ýsubeinum (kl. 17:00-19:00). Eins verður hægt að fá mynd af sér í venjulegum fötum með vinum sínum í Photo Booth í Ljósmyndaskólanum á Hólmaslóð (kl. 13:00-20:00).
Á Menningarnótt verður margt fleira skemmtilegt og ofboðslega hresst í gangi.
Við mælum með því að þið notið vikuna og kynnið ykkur dagskrána betur á heimasíðu Menningarnætur– Við á Úllendúllen munum að sjálfsögðu rýna betur í dagskránna og kynna suma viðburði sem henta fjölskyldunni þegar nær dregur.