Fátt er leiðinlegra fyrir ungviðið en að fara með foreldrum sínum á söfn. Það má ekkert snerta, ekkert prófa og varla nokkuð annað að gera en bíða eftir því að gamla settið hætti að stara einsog vankaðir viðvaningar á einskis nýta hluti. Á þessu eru þó skemmtilegar undantekningar sem einhverjar barnafjölskyldur vilja kannski hafa í huga næst þegar farið er út fyrir landssteinanna.
Astrid vildi nýstárlegt safn
Ein slík undantekning er Sögusafnið á Sólbakkanum (Junibacken) í Stokkhólmi.
Það er freistandi að kalla það Safn Astrid Lindgren en þá myndi sagnaskáldið sænska snúa sér í gröfinni. Hún var einmitt mjög fráhverf þeirri hugmynd að sett upp yrði gamaldags safn tileinkað sér, en öðru máli gegndi um einskonar menningarsetur þar sem sögupersónur hennar blésu anda í brjósti yngri höfunda um leið og þær gerðu líf gestanna aðeins litríkara.
Hittu Emil í Kattholti og Línu langsokk í lestarferð
Hjartað á Sólbakkanum er sérstök sögu-lestarferð, en lestin sú flýgur með farþeganna á vit ævintýra Astrids Lindgren. Á leiðinni sjá gestir því Línu Langsokk bregða fyrir, Emil í Kattholti og fleiri félaga af þeim söguvettvangi og ekki þarf að leggja sérlega vel við hlustir til að heyra illskuöskrin í pabbanum.
Einsog við var að búast er systir Emils uppí flaggstönginni að virða fyrir sér útsýnið. Þó alla jafna verði menn að fara yfir móðuna miklu til að komast til Nangijala, rétt einsog þeir bræður Kalli og Jónatan í sögunnu um Bróður minn ljónshjarta, er lestin á Sólbakka ekki í neinum vandræðum með að bera gesti þangað og leyfa þeim að heyra og sjá þá bræður berjast við vöndu öflin.
Bókin Bróðir minn ljónshjarta er saga um hugrekki en það þarf ekki mikið af því til að leggja í þessa lestarferð, nema þá kannski þegar drekinn Katla bregður á leik eða músin ærslafulla. Þá er nú gott fyrir allra yngstu farþegana að hafa styrka hönd til að halda í.
Tvö ár að undirbúa fimmtán mínútna frægð
Ferðin tekur korter en þessi fimmtán mínútna gleði var svo aldeilis ekki hrist framúr erminni á sínum tíma. Það tók tvö ár að hanna söguvettvanginn sem ferðast er um og voru bestu leikhús Svíþjóðar nær uppiskroppa með góða leikmyndahönnuði sem flestir voru önnum kafnir á Sólbakkanum. Astrid var að vonum afar kát með afreksturinn þegar opnað var árið 1996. Safnið heitir eftir heimkynnum Meddittar, sem er ein af þekktustu sögupersónunum.
Fjöldi leiksýninga fer einnig fram á sögusafninu og þar sem Astrid vildi alls ekki láta safnið einskorðast við sína söguafkvæmi, má finna fjöldann allan af góðum vinum sem komnir eru úr öðrum sagnaheimum.
Lína varð til í veikindum
Astrid Lindgren lést árið 2004, þegar hana vantaði þrjú ár í aldarafmælið. Hún sló fyrst í gegn með sögum sínum af Línu Langsokkur. Þær sögur urðu til þegar Karen dóttir hennar veiktir, en þá var Astrid um þrítugt, og vildi móðirin stytta henni stundir með sögum sem hún spann jafnóðum. Það var síðan þegar sagnaskáldið sjálft veiktist, sem hún fór að skrifa þessar sögur niður og restinn er…ja, saga.
Hvað viljið þið vita meira um Astrid Lindgren og persónurnar hennar? Frábær sýning var í Norræna húsinu árið 2016 um Línu langsokk. Þar var hægt að sjá ýmsa muni sem tengjast þessum eldhressa og nautsterka grallaraspóa.
Hátt í 2000 hafa heimsótt Línu