Margt skemmtilegt að gera um helgina

Þetta verður nú meiri helgin. Það er bókstaflega nóg að gera!

Veðurstofan spáir fínasta veðri um allt land – nema á Austurlandi. Það verður alveg ágætt í dag. En á morgun er gert ráð fyrir að bresti á með brakandi blíðu nær allsstaðar – nema á Austurlandi.

Og þá er nú um að gera og fara út – nema á Austurlandi.

Hreinsum saman

Reykjavíkurborg blæs í lúðra alla helgina í átakinu Hreinsum saman, sem er liður í evrópskum hreinsunardögum. Borgarbúar eru hvattir til að taka þátt og tína rusl af götum. Af nógu er að taka – það er að segja ef plokkararnir voru ekki á undan á Stóra plokkdeginum. En þetta er fyrirtak enda veðrið gott.

Íbúar mega skilja eftir rusl á völdum svæðum, sem starfsfólk hverfastöðva sér svo um að koma í Sorpu.

Ævintýraferð fjölskyldunnar

Auðvitað er alltaf hægt að fara í gönguferð og jafnvel hjóla. Hellingur af skemmtilegum leiðum eru í boði í góða veðrinu – sem verður reyndar ekki á Austurlandi. Borgarbúar sem ekki hafa farið í Elliðaárdalinn ættu að kíkja þangað í góða veðrinu og heilsa upp á risann Búra og njóta útiverunnar í frábærum skógi.

Lesa meira um allt sem hægt er að gera í Elliðaárdal.

Þeir djörfustu geta líka hjólað út á Gróttu eða hvert sem er.

En svo er líka frábær hugmynd í góða veðrinu að fara í ratleik í Heiðmörk eða ganga á fjall, Esjuna, Úlfarsfell eða Helgafell.

Meira um ratleikinn í Heiðmörk

Frisbí um allar koppagrundir

Víða um land eru frisbívellir. Auðvitað er hægt að vera fagmaður, kaupa diska og mæta með fjölskylduna uppstrílaður á Klambratún, í Fossvogsdalinn eða hvaða völl sem er um allt land. Þeir eru víða. En vel er hægt að skemmta sér með ósköp venjulega frisbídiska.

Smelltu á myndina og lestu meira um frísbívellina.

Innipúkar geta líka haft nóg fyrir stafni. Í tilefni af því að fjöldatakmarkanir voru rýmkaðar 4. maí bjóða söfnin í borginni gestum og gangandi í heimsókn. Ekki þarf að greiða aðgangseyri hvorki í Listasöfn Reykjavíkur né á Þjóðminjasafnið. Þar eru flottar sýningar í boði.

Meira um Þjóðminjasafnið

Meira um Listasafn Reykjavíkur

Svo er náttúrlega ógurlega gaman að draga fram borðspil. Það er eitthvað sem allir hafa gaman að – allavega flestir. Lumið þið á skemmtilegum borðspilum?

Sjónvarpsdagskráin er líka góð. Herra Bean er á RÚV og Lögin í Eurovision. Á laugardag er svo þátturinn Alla leið þar sem gestir ræða á fjörugan hátt um lögin sem valin voru til þátttöku í Eurovision.

Ef þið fóruð út að tína rusla í borginni á laugardag þá er bara gaman að gera það aftur á sunnudag.

Bíltúr til ömmu

En munið að á sunnudag er 10. maí.

Þetta er mæðradagurinn! Þá er upplagt að gera vel við mömmu og skella sér jafnvel í bíltúr með blóm handa ömmu. Góða helgi.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd