Síðustu forvöð eru að sjá sýningar Sirkus Íslands áður en hann fer í vetrarham en síðasta sýningin verður sunnudaginn 23. ágúst. Eftir það verður sirkustjaldinu pakkað saman og verða því engar aukasýningar eins og margir kannski búast við.
Sirkusinn hefur verið með sirkustjald á Klambratúni í nokkrar vikur í sumar og sýnt þar þrjár mismununandi sýningar fyrir börn og fullorðna nær hvern einasta dag. Tvær henta krökkum: Heima er best og S.I.R.K.U.S. sem tekur aðeins klukkutíma og því tilvalin fyrir börn á leikskólaaldri. Heima er best er sýning í tvo klukkutíma en með hléi.
Sirkusfólk í háskóla
Sirkusdrottningin Margrét Erla Maack segir nokkrar ástæður fyrir því að sirkusinn sé að pakka tjaldinu saman. Hann hafi leyfi fyrir sýningum á Klambratúni til 23. ágúst en svo séu þrír lykilmeðlimir hans að fara utan til Hollands til að halda áfram námi sínu í sirkusháskóla.
Sirkusinn ferðast um landið
Mikið hefur verið að gera hjá Sirkusi Íslands í sumar. Hann hefur ferðast um landið og stundum fleiri komið á sýningar en búa á þeim stöðum sem hann heimsótti. Margrét nefnir sem dæmi að tvöfaldur íbúafjöldi mætti á sýningar sirkusins á Fáskrúðsfirði og á Blönduósi skreið fjöldi gesta rétt yfir fjölda bæjarbúa.
Þótt sirkusinn sé sýnilegastur á sumrin þá er líka nóg að gera fyrir utan sýningar en sirkusfólkið nýtir veturinn til að skemmta hjá fyrirtækjum, í kokteilboðum, á árshátíðum og opnum húsum út um allar trissur.
Sirkusnámskeið í vetur
Sirkus Íslands hefur síðastliðin þrjú sumur haldið námskeið fyrir 8-14 ára krakka í húsnæði Ármanns í Laugadalnum. Yfir vetrartímann eru framhaldsnámskeið fyrir þá sem hafa farið í byrjendanámskeið. Þá er krökkunum hjálpað við að finna sín sérsvið og búa til atriði. Uppskeruhátíðin er vorsýning Sirkus Íslands þar sem krakkarnir sýna listir sína. Vonir standa til að vorsýningin verði hluti af Barnamenningarhátíð á næsta ári.
En hvað hefur komið Margréti mest á óvart í sumar?
„Það sem kom okkur mest á óvart er meðal annars þakklæti nýrra Íslendinga, sem gátu nú komið með barninu sínu í sirkus og fengið jafn mikið út úr sýningunni og næsti maður,“ segir hún og bendir á að leikhúsupplifunin hjá Sirkusi Íslands er ekki bundin tungumáli enda ekkert talað á sýningum fyrir yngstu gestina.