Ljósmyndasafn Reykjavíkur: Gaman að skoða gamalt og nýtt

Ljósmyndasafn Reykjavíkur - gaman að skoða gamlar myndir

Myndir Gunnars Rúnars Ólafssonar í Ljósmyndasafni Reykjavíkur sýna mannlíf og umhverfi í Reykjavík og víðar um miðja 20. öldina á lifandi og skemmtilegan hátt.

Ljósmyndasafn Reykjavíkur er staðsett uppá 6. hæð í Grófarhúsinu í Reykjavík, sama húsi og Borgarbókasafnið. Þangað getur verið gaman að leggja leið sína fyrir unga sem aldna.

Ljósmyndasafn Reykjavíkur – flottur sýningarsalur

Sýningarsalur Ljósmyndasafnsins er fallegur, vel lýstur og er hin ákósanlegasta aðstaða til ljósmyndasýninga. Skipt er um aðalsýningu á nokkurra mánaða fresti og viðfangsefnin eru afar fjölbreytt og fást bæði við söguleg viðfangsefni sem og nútímann.

Nú um stundir býður Ljósmyndasafn Reykjavíkur uppá yfirlitssýningu með myndum Gunnars Rúnars Ólafssonar frá árunum 1947 – 1964. Myndirnar eru margar hverjar skemmtilegar og lifandi og gefa innsýn og mannlífið á Íslandi um og uppúr miðri 20. öldinni. Þær sýna líka hvernig umhverfið t.d. í Reykjavík hefur gjörbreyst á örfáum áratugum.

Ljósmyndasafn Reykjavíkur - gaman að skoða fyrir börn og fullorðna

Þessi stúlka virðir fyrir sér mynd af skólanum sínum og nágrenni hans eins og það var fyrir meira en 50 árum.

Gaman getur verið að skoða þessar myndir með börnum og unglingum og ræða í leiðinni þær ótrúlegu breytingar sem orðið hafa á klæðnaði og mannlífi fólks síðustu 50-70 árin. Einnig er gaman þegar hægt er að tengja myndir við byggingar og umhverfi sem krakkar þekkja í dag og skoða þær breytingar sem hafa orðið.

Ef fjölskyldan á erindi í miðbæinn eða á bókasafnið er tilvalið að kíkja við í Ljósmyndasafninu eða bara gera sér ferð þangað. Ljósmyndasafn Reykjavíkur eða sýningarsalur þess er opinn og aðgengilegur á opnunartíma Borgarbókasafnsins í Grófarhúsinu.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd