
Síðustu fimmtudagar í hverjum mánuði hafa verið lengri en aðrir dagar vikunnar á Listasafni Reykjavíkur í vetur. Nú er síðasti fimmtudagurinn í júní handan við hornið og í tilefni af því er bæði ókeypis á safnið og ókeypis leiðsagnir um sýningar í boði.
Boðið er upp á tvær leiðsagnir að þessu sinni. Eina í Hafnarhúsi og aðra á Klambratúni.
Báðir viðburðirnir hefjast klukkan 20:00 fimmtudaginn 24. júní.
Viðburðirnir í Hafnarhúsi og á Klambratúni eru hluti af dagskrá Listasafns Reykjavíkur á löngum fimmtudegi og er þátttaka gestum að kostnaðarlausu.
Þá er tilvalið að bregða sér af bæ og skoða fjölbreyttar listasýningar, kíkja inn á vinnustofur listamanna, heimsækja listamannarekin rými, gallerí og söfn – og upplifa líflega myndlist um allar koppagrundir.
Tveir frábærir viðburðir
Í Hafnarhúsi er sýningin Iðavöllur: Íslensk myndlist á 21. öld. Markús Þór Andrésson er leiðsögumaður um sýninguna. Opið er á safninu til klukkan 22:00.

Á Klambratúni leiða þær Edda Halldórsdóttir, verkefnastjóri skráninga hjá Listasafni Reykjavíkur, og Elízabet Guðný Tómasdóttir, landslagsarkitekt hjá Landslagi, gesti um listaverk og umhverfi Klambratúns. Leiðsögnin hefst við verk Sigurjóns Ólafssonar Minnismerki um Nínu Tryggvadóttur fyrir framan Kjarvalsstaði.
Gangan hefst klukkan 20:00 og er líka opið á safninu til klukkan 22:00.
Meira um viðburðinn á Facebook