Listahátíð í Reykjavík 2018: Risaeðlur, ofurhetjur og teppaborg fyrir fjölskylduna

Listahátíð í Reykjavík 2018 hefst föstudaginn 1. júní og stendur hún alveg til þjóðhátíðardagsins 17. júní. Listahátíð er sem fyrr sprengfull af krassandi og skemmtilegum viðburðum.

Í ár er sérstök áhersla lögð á viðburði fyrir fjölskylduna. Þarna verða sprenghlægilegar kyndur frá Kanada, risaeðlur frá Hollandi, ofurhetjurnar Óður og Flexa, atriði með dansi fullorðinna og barna á Seltjarnarnesi, útilistaverk á hjóla- og göngustígum borgarinnar og svo má lengi telja.

Listahátíð hefur verið haldin frá árinu 1970 og því komin heljarinnar reynsla af því að bjóða upp á tipptopp viðburði fyrir sem flesta. Svo er auðvitað margt annað skemmtilegt og athyglisvert fyrir fjölskylduna en bara þeir viðburðir sem sérstaklega eru eyrnamerktir fjölskyldunni.

 

Risaeðlur frá Hollandi

Hollenski götuleikhópurinn Close-Act Theater er þekktur fyrir afar myndrænar uppfærslur. Hópurinn hefur búið til risavaxnar skepnur sem munu þramma um götur Reykjavíkur.

Risaeðlurnar verða á ferðinni sem hér segir:

2. júní kl. 14:00 verður lagt af stað frá Iðnó og farið um Lækjargötu, Austurstræti og Austurvöll.

3. júní kl. 11:00 verða risaeðlurnar við Egilshöll í Grafarvogi í tilefni Grafarvogsdagsins.

Ítarlegri upplýsingar: Risaeðlurnar

 

Óður og Flexa: Rafmagnað ævintýri

Eftir ævintýralegt afmælispartý er allt á rúi og stúi heima hjá Óði og Flexu. Þau eru ennþá uppveðruð eftir að hafa ferðast um heima og geima með ímyndunaraflinu og eru tilbúin til að takast á við næsta ofurhetjuverkefni: Að taka til með stæl!

Ævintýrið verður flutt í Borgarleikhúsinu 2. og 3. júní.

Ítarlegri upplýsingar: Óður og Flexa

Dansað saman

Stór hópur af fullorðnum og börnum dansa saman með suð í eyrum. Hoppandi í pollum með blóðnasir; við lifum í öðrum heimi þar sem við erum aldrei ósýnileg. Eiðistorg á Seltjarnarnesi er vettvangurinn fyrir The Great Gathering á Listahátíð en verkið var fyrst sýnt á Norður og niður, listahátíð Sigur Rósar um jólin. Verkið er flutt af dönsurum Íslenska dansflokksins og hópi af krökkum á aldrinum 9-16 ára við tónlist eftir Sigur Rós, Gus Gus, Hot Chip, Jarvis Cocker, Peaches og fleiri.

Dansinn fer fram á Eiðistorgi 8. júní.

Ítarlegri upplýsingar: Dansað á Eiðistorgi

Kindurnar

Kanadíski danshópurinn Corpus gefur fólki innsýn inn í furðulegan og bráðfyndinn heim kinda.  Sýningin fer fram í glænýju útileikhúsi sem er staðsett við Veröld – Hús Vigdísar.

Kindurnar koma fram 9. og 10. júní.

Ítarlegri upplýsingar: Kindurnar frá Kanada

Teppaborgin

Teppaborgin er tímabundið leiksvæði hannað af börnum fyrir börn í Tjarnarsal Ráðhússins. Þarna geta börn á öllum aldri komið og byggt sér eigin borg úr teppum.

Viðburðurinn verður í Ráðhúsi Reykjavíkur 9. og 10. júní.

Ítarlegri upplýsingar: Teppaborgin

 

Hjálmurinn

Ungur drengur er með hjálm á hausnum. Hann ætlar ekki undir neinum kringumstæðum að taka hjálminn af, festir hann á sig með keðju og stórum lás. Hann ætlar ekki að taka hjálminn af fyrr en… Þetta er tónlistarhópurinn Ensemble Adapter ásamt leikaranum Guðmundi Felixsyni sem flytja verk sem er allt í senn, tónleikar, sögustund og útvarpsleikhús.

Hjálmurinn verður fluttur 10. júní.

Ítarlegri upplýsingar: Hjálmurinn

 

 

Fleiri viðburðir á Listahátíð í Reykjavík 2018

 

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd