Lína Langsokkur er 70 ára prakkari

Lína Langsokkur og herra Níels

Lína Langsokkur og herra Níels apinn hennar eru alltaf til í ævintýri. Óvíst er hvað Níels er gamall. En 70 ár eru liðin síðan fyrsta bókin eftir Astrid Lindgren um prakkarann Línu Langsokk kom út.

Lína Langsokkur er íslenskum börnum og foreldrum að góðu kunn. Hinar klassísku og stórskemmtilegu bækur Astrid Lindgren um sterkustu stelpu í heimi, apann hennar og hestinn sem hún lyfti hafa skemmt nokkrum kynslóðum barna og foreldrum þeirra um allan heim í 70 ár.

Hver er mamma Línu Langsokks?

Höfundur bókanna um Línu Langsokk var sænski rithöfundurinn Astrid Lindgren. Hún var fædd árið 1907 og lést 94 að aldri árið 2002. Fyrsta saga Lindgren var jólasaga sem birt var í tímariti árið 1933. Á vef Forlagsins, sem gaf árið 2014 út allar sögurnar um Línu, segir að dag nokkurn árið 1941 varð níu ára dóttir rithöfundarins veik. Astrid Lindgren stytti hennir stundirnar í veikindunum með sögum af óforbetranlegum ólátabelg sem bjó í stóru húsi ásamt hesti sínum og apa en laus við foreldra sína. Dóttir Lindgren, sem hét Karin, átti hugmyndina að því að stelpan í sögunni fengið nafnið Pippi, sem á íslensku var skírð Lína.

Fékk ekki útgefanda

 

Astrid Lindgren reyndi að fá sögurnar um ævintýri Línu Langsokks gefnar út hjá forlagi árið 1944. En handritinu var hafnað. Þrjár fyrstu sögurnar af Línu komu svo ekki út fyrr en ári síðar hjá útgáfunni Rabén & Sjögren. Fleiri sögur litu dagsins ljós til ársins 1948.

original-525x320

Árið 1947 réð Astrid sig í starf ritstjóra barnabóka hjá Rabén & Sjögren og var hún þar í hálfu starfi til 1970. Morgnana notaði hún til skrifta en kom til forlagsins eftir hádegið. Árið 1958 hlaut Astrid Lindgren Bókmenntaverðlaun H.C. Andersen, sem voru virtustu verðlaun sem veitt voru höfundum barnabóka þar til Bókmenntaverðlaun kennd við hana sjálfa voru stofnuð við andlát hennar árið 2002. Fjölmörg önnur verðlaun féllu henni í skaut á löngum rithöfundarferli.

Allir elska Línu!

Astrid Lindgren skrifaði fleiri bækur um Línu Langsokk. Sex bækur komu út á árunum 1969-1975 og tvær sögur til viðbótar árið 1979 og 2000. Bækurnar um Línu Langsokk hafa verið þýddar á meira en 70 tungumál.

Sögurnar af þessari uppátækjasömu dóttur sjónræningjans Langsokks sem alltaf er níu ára og gerir flesta hluti öðruvísi en aðrir hafa líka verið uppspretta ótal leikrita, teiknimynda og kvikmynda. Ein sú þekktasta og sú sem margir telja hina einu sönnu kom út árið 1973 og heitir á íslensku Lína Langsokkur á ferð og flugi.

Astrid Lindgren skrifaði auðvitað miklu fleiri bækur með einstökum persónum. Þar á meðal eru Emil í Kattholti, Karl Blómkvist og hvað þau heita nú öll.

Viltu lesa meira um Línu Langsokk? Wikipedia veit allt um málið.

Lína Langsokkur býður þér í afmæli

Í tilefni af 70 ára útgáfuafmæli Línu Langsokks ætlar Norræna húsið og sænska sendiráðið á Íslandi að bjóða til afmælisveislu. Veislan verður í Norræna húsinu laugardaginn 28. nóvember. Afmælið verður frá klukkan 13:00-16:00. Öllum er boðið sem vilja fagna afmæli Línu Langsokks.

Viltu fara í afmæli? Skoðaðu þá afmælisboðið betur í viðburðadagatali Úllendúllen.

Í tilefni af afmæli Línu Langsokks verður sett upp sýning um hana. Sýningin er í Norræna húsinu og stendur fram að jólum á milli klukkan 12:00 og 17:00.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd