Lína Langsokkur er íslenskum börnum og foreldrum að góðu kunn. Hinar klassísku og stórskemmtilegu bækur Astrid Lindgren um sterkustu stelpu í heimi hafa skemmt nokkrum kynslóðum barna um allan heim um áratugaskeið.
Sögurnar af þessari uppátækjasömu sjónræningjastelpu sem gerir flesta hluti öðruvísi en aðrir hafa líka verið uppspretta ótal leikrita, teiknimynda og kvikmynda. Ein sú þekktasta og sú sem margir telja hina einu sönnu kom út árið 1973 og heitir á íslensku Lína Langsokkur á ferð og flugi.
Á frummálinu heitir hún Här kommer Pippi Långstrump og er unninn uppúr sjónvarpsþáttaröðum sem gerðar voru af Olle Hellbom um 1970. Eins og flestir þekkja þá fjallar myndin um ævintýri Línu og vina hennar Önnu og Tomma. Einnig koma við sögu hesturinn hennar Línu og apinn herra Níels ásamt fleiri persónum í smærri hlutverkum.
Lína Langsokkur ókeypis í þrjúbíó
Á sunnudaginn (13. sept 2015) býður Bæjarbíó hressum krökkum og foreldrum þeirra að sjá þessa skemmtilegu mynd í þrjúbíó. Athugið að það kostar ekkert inn en aðeins 250 sæti eru í boði. Til að tryggja sér sæti borgar sig að skrá sig á facebook-síðu Bæjarbíós.