
Þingmenn og starfsmenn skrifstofu Alþingis standa vaktina og taka á móti gestum þegar dyr Alþingishússins verða opnaðar almenningi og öllumsem vilja skoða húsið í tilefni af 100 ára afmæli fullveldisins laugardaginn 1.desember. Húsið verður opið börnum og fjölskyldum þeirra – og reyndar öllum semvilja skoða húsið – og verður þeim sýnd inn í rými sem alla jafna eru ekki opinalmenningi.
Alþingishúsið verður opið almenningi á milli klukkan 13:30 – 18:00 í tilefni af því að þá eru 100 ár liðin frá því að sambandslagasamningurinn tók gildi 1918 og Ísland varð frjálst og fullvalda ríki.
Margir krakkar hafa komið og skoðað Alþingishúsið. Sérstaklega eru það börn úr leikskólum og grunnskólum sem koma reglulega í heimsókn.
Hvað vitið þið um Alþingishúsið?
Alþingishúsið stendur við Austurvöll í Reykjavík og er aðsetur Alþingis Íslendinga. Húsið teiknaði Ferdinand Meldahl, forstöðumaður listaakademíunnar í Kaupmannahöfn. Það var reist árið 1881 eða fyrir 137 árum.
Árið 1880 var hafist handa við byggingu Alþingishússins við Kirkjustíginn, en áður hafði verið gert ráð fyrir að húsið yrði byggt við Bakarastíg, þar sem nú er Bankastræti. Halldór Kr. Friðriksson yfirkennari seldi þá land sitt við Kirkjustíginn fyrir 2.500 krónur og þótti óheyrilegt verð í þá daga. Þar hafði áður verið kálgarður hans og þar var Alþingishúsið reist.
Við byggingu hússins, sem og fangahússins við Skólavörðustíg, sem hafði verið reist ellefu árum áður, eða árið 1872, lærðu reykvískir iðnaðarmenn að höggva og tilreiða grjót úr holtunum til húsabygginga.
Fullveldisafmælið
Það má búast við miklu fjöri í Alþingishúsinu á 100 ára afmæli fullveldisins á laugardag. Í Skála Alþingishússins verður sýning á ljósmyndum, skjölum og völdum tilvitnunum úr umræðum á þingi um sambandslagasamninginn.
Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis. Inngangur er um aðaldyr Skálans.
Boðið er upp á fjölmarga viðburði í tilefni dagsins. Þá er að finna á vefsíðunni www.fullveldi1918.is.