
Margir krakkar hafa lesið bækurnar um samskipti Litla skrímslis og Stóra skrímslis. MYND / Gerðuberg
„Flest börnin vilja vera Litla skrímsli en fleiri strákar vilja vera það stóra,“ segir leikkonan Ólöf Sverrisdóttir. Laugardaginn 2. apríl stýrir hún leiklistarsmiðjunni Skrímslatjáning í Gerðubergi í Breiðholti fyrir börn á aldrinum 5-8 ára. Í leiksmiðjunni verður leikið með þemu úr bókunum um Litla skrímsli og Stóra skrímsli. Þar koma fyrir góðar og erfiðar tilfinningar sem börnin vinna með.
Námskeiðið hefst klukkan 13:30 og stendur í um klukkustund. Á bilinu 10-16 börn geta tekið þátt í námskeiðinu.
Allir eru velkomnir og þátttaka er ókeypis en nauðsynlegt er að skrá börn með því að senda póst á umsjónarmann olof.sverrisdottir@reykjavik.is
Nánari upplýsingar má finna á Facebook-síðu smiðjunnar.
Allir þekkja skrímslin
Ólöf hefur stýrt mörgum leiksmiðjum með börnum í gegnum tíðina. Hún hefur aðeins einu sinni áður haldið leiksmiðju í tengslum við skrímslasýninguna í Gerðubergi.
Ólöf segir flest ef ekki öll börnin sem komu á fyrstu listasmiðjuna hafa þekkt bækurnar um Litla skrímsli og Stóra skrímsli og gerir ráð fyrir að mörg börn þekki þessar frábæru bækur.
Bækurnar um Litla skrímsli og Stóra skrímsli eru átta talsins og fjalla þær um samskipti skrímslanna. Í haust opnaði í menningarhúsinu Gerðubergi sýning um skrímslin og hefur síðan þá verið boðið reglulega upp á ýmislegt skemmtilegt um helgar í tengslum við sýninguna.
Börnin hjálpast að
En hvernig er leiksmiðja Ólafar í Gerðubergi?
„Ég byrja á leikjum og spuna, léttum leik sem allir geta tekið þátt í. Þegar við höfum leikið okkur smá fara skrímslin að mjakast inn til okkar. Þá förum við að nota það sem einkennir skrímslin, tilfinningarnar. Síðast tók ég eina bók um skrímslin fyrir. Börnin völdu sér hlutverk en stundum þurfa tvö eða fleiri börn að leika sama hlutverkið,“ segir Ólöf og bætir við að spunaleikir á borð við þessa auki ímyndunarafl barnanna og styrki þau í leiknum.
Ólöf segir að þótt leiksmiðjan sé fyrir 5-8 ára þá geta 9 ára börn líka tekið þátt. Þau hjálpi þeim yngri.
Leiksmiðjan tekur um 45 mínútur. Eftir æfingar verður sýning sett upp fyrir foreldra og aðra forráðamenn barnanna.
„Þetta verður ekki flókin sýning, en skemmtileg. Þau voru æðisleg síðast og þetta gekk ótrúlega vel,“ segir Ólöf.
Hvaða skrímsli ert þú?
Það liggur beinast við að spyrja hvort skrímlið börnin vilja heldur vera.
Ólöf segir Litla skrímslið vinsælla en það stóra. Þó fari það eftir kynjum, stelpur tengi betur við Litla skrímslið en strákar við Stóra skrímslið.
Á sýningunni geta gestir gengið inn í heim skrímslanna tveggja og upplifað veröldina frá þeirra sjónarhorni. Meðal þess sem hægt er að gera er að líta inn á heimili stóra skrímslisins eða heimsækja litla skrímslið, fara um vinalegan skrímslaskóginn eða spennandi skúmaskot skrímslaþorpsins.
Vertu skrímsli
Víðsvegar í sýningunni er hægt leika sér að hætti skrímslanna: leika með kubba eða liti, glíma við skrímslaskák og aðrar þrautir. Svo þurfa skrímslin auðvitað stöðuga hjálp gesta við að hafa upp á skrímslakisanum sem iðulega týnist í dagsins önn. Umfram allt er gestum gefinn kostur á að setjast niður og eiga afslappaða stund með bók í hönd og verða um leið þátttakendur í sögunum um skrímslin tvö.
Sýningin hættir seint í apríl
Sýningarhönnun og stjórn er í höndum Áslaugar Jónsdóttur, eins þriggja höfunda Skrímslabókanna, og Högna Sigurþórssonar. Skrímslabækurnar eru samstarfsverkefni Áslaugar, Rakel Helmsdal og Kalle Güettler og eru skrifaðar á íslensku, færeysku og sænsku.
Sýningin hlaut styrk frá Norræna menningarsjóðnum og er hönnuð sem farandsýning. Til stendur að sýningin fari áfram til Færeyja og Svíþjóðar eftir að henni líkur hér á landi.
Nú fer hver að verða síðastur að sjá sýninguna um skrímslin. Síðasta sýningarhelgin er nefnilega í lok Barnamenningarhátíðar 24. apríl.