Lærum um náttúruna á Hólmavík

_MG_8866

Fjölskyldur sem leið eiga um Vestfirði verða að kíkja við í Náttúrubarnaskólanum á Sauðfjársetrinu á Hólmavík. Það er yfirnáttúrubarnið Dagrún Ósk Jónsdóttir sem sér um skólann þetta fyrsta sumar sem hann er starfræktur og verður kennt í honum til 23. ágúst.

Skólinn er bæði fyrir börn og fullorðna og því tilvalið fyrir fjölskylduna að skella sér á svolítið öðruvísi skólabekk í sumarfríinu og læra um hitt og þetta í náttúrunni. Einkunnarorðin eru útivera fyrir börn á öllum aldri og gefst nemendum kostur á að sjá, snerta og upplifa náttúruna.

 

Búum til fuglahræðu

Í skólanum er hægt að föndra og mála, skoða seli, leita að hreiðrum, fara í alls konar leiki, læra að búa til fuglahræður, senda flöskuskeyti heimshorna á milli, kryfja fiska og búa til jurtaseyði.

Tvö helgarnámskeið eru búin. Eitt var nú um helgina og er eitt eftir dagana 22.-23. ágúst næstkomandi. Skólinn stendur líka fyrir göngufeerðum, kvöldgöngum, sérnámskeiðum og ýmsu öðru skemmtilegu sem snertir náttúruna.

Kennslan er síður en svo hefðbundin. Hún fer fram á fimmtudögum og um helgar á milli klukkan 13 til 17. Hver kennslustund kostar 2.500 krónur en helgarnámskeiðin kosta 5.000 krónur. Kaffi og annað nesti er innifalið á fimmtudagsnámskeiðinu en grill og skemmtun á laugardagskvöldin á helgarnámskeiðinu.

Það skemmtilega við Náttúrubarnaskólann er að hópar sem eiga leið um Strandir og vilja kíkja við á Hólmavík geta pantað námskeið hjá Dagrúnu yfirnáttúruskólastjóra.

Skoðið Facebook-síðu Náttúrubarnaskólans áður en þið komið á Strandirnar og skellið ykkur í skólann!

 

Staðsetning viðburðar: Hólmavík

Hefst: Fimmtudaga / 22.-23. ágúst / hópar geta pantað tíma. Klukkan 13:00

Lýkur: Klukkan 17:00

Kostar? 2.500 á stök námskeið / 5.000 krónur á helgarnámskeið

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd