Lærum að þurrka og borða söl

Nemendur Náttúrubarnaskólans skoða fjöruna á Ströndum. Myndin er fengin af Facebook-síðu skólans.

Nemendur Náttúrubarnaskólans skoða fjöruna á Ströndum. Myndin er fengin af Facebook-síðu skólans.

„Við ætlum að finna jurtir í fjörunni, læra um rekavið og tína söl sem við þurrkum og borðum. Fuglar eru í fjörunni sem við skoðum líka,“ segir Dagrún Ósk Jónsdóttir, kennari við Náttúrubarnaskólann á Sauðfjársetrinu á Ströndum. Setrið er við Orustutanga. Þaðan er stutt niður í fjöru.

Náttúrubarnaskólinn heldur námskeið fyrir börn og fullorðna alla fimmtudaga í sumar. Nóg hefur verið að gera og margir sest á skólabekk. Nemendur eru frá aldrinum fimm ára og upp úr.

 

Náttúran er námsefni

Námskeiðin eru þematengd og hefur meðal annars verið sjávar- og fjöruþema og fuglaþema. Á fimmtudag í síðustu viku var þemað galdrar og þjóðtrú. Næsta fimmtudag verður fjaran í aðalhlutverki.

Í skólanum er hægt að föndra og mála, skoða seli, leita að hreiðrum, fara í alls konar leiki, læra að búa til fuglahræður, senda flöskuskeyti heimshorna á milli, kryfja fiska og margt fleira.

Einkunnarorð skólans útivera fyrir börn á öllum aldri. Nemendum skólans gefst kostur á að sjá, snerta og upplifa náttúruna. Námskeið í skólanum eru fyrir börn og fullorðna á hverjum fimmtudegi. Auk þess eru stöku helgarnámskeið og kvöldgöngur.

„Námskeiðin eru um 70% skemmtun og 30% fræðsla og við höfum reynt að hafa þetta fjölbreytt,“ segir Dagrún.

 

Börnin vita mikið um náttúruna

Hún bætir við að það hafi komið sér á óvart hvað börn vita mikið um náttúruna. „Það er algengt að börn komi í skólann sem hafa tínt blóðberg með ömmu sinni og segja mér eitthvað sem ég vissi ekki. Það finnst mér mjög skemmtilegt. Ég læri líka á námskeiðunum. Það er engan vegin hægt að vita allt um náttúruna,“ segir Dagrún Ósk Jónsdóttir í Náttúrubarnaskólanum.

Nánari upplýsingar um Náttúrubarnaskólann má finna á Facebook.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd