Sagt er að útileikurinn Kubb sé gamalt víkingaspil frá Gautlöndum í Svíþjóð. Fram kemur á vefnum Áttavitinn að lítið sé til í því. Þvert á móti hafi leikurinn í þeirri mynd sem hann þekkist í dag komið fram á sjónarsviðið eftir 1990 í Svíþjóð sem barna- og fjölskylduspil.
Völlurinn í Kubb er 5 metra breiður og 8 metra langur. Fjórar stikur eru notaðar til að afmarka völlinn. Tvær stikur eru settar sitthvoru megin við miðju vallarins og kóngurinn á milli þeirra. Kubbarnir fara loks á sitthvorn enda vallarins, 5 á hvorn enda. Hér má sjá mynd af því hvernig völlurinn er gerður.
Fellið kónginn
Þeir sem spila Kubb skiptast í tvö lið og eiga þau að kasta sex prikum í kubba andstæðinganna.
Ef leikmaður hittir kubb, kastar það lið sem átti fallna kubbinn honum yfir á vallarhelming þess liðs sem felldi hann. Þessir kubbar kallast „vallarkubbar“. Þá þarf liðið sem átti vallarkubbinn að fella hann. Ef það tekst ekki má hitt liðið færa sig að vallarkubbnum og kasta þaðan.
Það lið sem fellir alla 5 kubbana og kónginn vinnur leikinn. Ef annaðhvort liðið fellir kónginn áður en 5 kubbar andstæðingsins hafa verið felldir tapar það lið sjálfkrafa sem felldi kónginn.