Kornungir sælkerabræður opna kaffihús

Kaffikrakkinn Rafn Ísak Winthersson og kökukrakkinn Róbert bróðir hans eru ástríðufullir sælkerar. Rafn, sem er 12 ára, stelst til að fá sér sopa af espresso. Róbert, sem er 10 ára, ætlar að verða atvinnumaður í fótbolta og opna bakarí þegar ferlinum líkur. Þeir Rafn og Róbert ætla að hella upp á og baka heima hjá sér í Bólstaðarhlíðinni á Menningarnótt á morgun og selja gestum kaffi og með því.

Úllendúllen ræddi við þá bræður um áhugann á bakstri og kaffi.

Auðvitað vildum við vita hvort þeir borði allar kökurnar sjálfir og drekki kaffi. Hafa þeir aldrei heyrt af því að krakkar hætti að vaxa drekki þeir kaffi?

 

Opna kaffihúsið heima

Bræðurnir hafa lengi haft hug á því að opna kaffihús saman þar sem þeir sjálfir sjá um allt frá A-Ö. Rafn hefur lengi haft gaman af því að hella upp á kaffi en Róbert galdrað góðgæti úr bakaraofninum. Hans helsta fyrirmynd er afi Ingi og amma Elísabet sem hafa verið svo dugleg að kenna honum að baka.

Þeir bræður létu draum sinn um kaffihúsið verða að veruleika heima í Bólstaðarhlíðinni á Menningarnótt í fyrra og ætla að endurtaka leikinn á morgun.

Á kaffihúsinu verður boðið upp á espresso, cappuccino, americano og margt fleira. Svo verða kleinuhringir, skúffukaka og pönnsur til að gæða sér á með kaffinu. Allt á hóflegu verði.

 

Hermir eftir mömmu og pabba

Rafn, hvernig stendur á því að þér finnst gaman að búa til kaffi?

„Ég var alltaf svo forvitinn að fá að prófa þegar ég var yngri af því mamma og pabbi búa til mikið af kaffi og svo fékk ég að prófa og finnst það rosalega gaman.“

En drekkurðu það sjálfur?

„Stundum stelst ég til að fá mér sopa af espresso þegar það verður afgangsbolli. Fyrst fannst mér það vont en síðan hafa bragðlaukarnir mínir þroskast aðeins og núna finnst mér það alveg ágætt.“

Ætlarðu að halda áfram að vera kaffibarþjónn í framtíðinni?

„Það er aldrei að vita. Ég er búinn að fá tilboð frá einu kaffihúsi að þegar ég verð nógu gamall þá fæ ég kannski að prófa mig sem kaffibarþjónn.“

 

Ætlar að opna bakarí

En Róbert, hvað finnst þér best að baka?

„Skemmtilegast og best að baka kökur, helst súkkulaðikökur því það er svo mikið súkkulaði í þeim.“

Fyrir hvern er skemmtilegast að baka og af hverju?

„Fyrir fjölskylduna mína því mér finnst gaman að gera hluti fyrir þau.“

Ætlarðu að verða bakari í framtíðinni?

„Ég ætla að verða bakari þegar ég er búinn að vera atvinnumaður í fótbolta. Þá ætla ég að opna bakarí þar sem fjölskyldan mín getur alltaf fengið frítt.“

Nánari upplýsingar um kaffiboð þeirra bræðra er á viðburði þeirra á Facebook.

 

[ad name=“POSTS“]

 

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd