Klingenberg skemmtir fjölskyldunni

Þetta samkomubann er nú meira vesenið! Það er á tímum sem þeim sem listasöfn landsins og menningartengd starfsemi kemur sterk inn. Borgarbókasafn og listasöfn landsins hafa kannski frestað eða aflýst fjölda viðburða. En söfnin eru opin þrátt fyrir samkomubann og því þurfa gestir að halda hæfilegri fjarlægð á milli sín. Viðmiðið er að gestir gæti þess að hafa tvo metra á milli sín og halda sér vel sprittuðum.

Nýlistasafnið í Marshallhúsinu er með skemmtilegri stöðum borgarinnar enda nýlistafólk með eindæmum hressa sýn á lífið og tilveruna.

Þessa dagana stendur yfir sýningin Erling Klingenberg, sem er sýning á verkum Erlings Klingenberg (listrænt, ekki satt?) síðastliðin 25 ár.

Í lýsingu á sýningunni á vef Nýlistasafnsins segir að einkennisorð Erlings séu heiðarleiki og húmor. Og það skín svo aldeilis í gegn því sýningin er stórskemmtileg fyrir alla fjölskylduna og fara flestir úr húsi með bros á vör nema gallhörðustu fýlupúkar.

Erling tekur yfir bæði sýningarrými Nýlistasafnsins og Kling & Bang í Marshallhúsinu og er hún opin á opnunartímum safnsins.

Nýlistasafnið er í Marshallhúsinu við Grandagarð 20 í Reykjavík.

Sýningin opnaði 14. mars og stendur til 26. apríl 2020.

Sýningartímar eru sem hér segir:

Þriðjudaga – sunnudaga frá klukkan 12:00-18:00

Fimmtudaga frá klukkan 12:00-21:00.

Hér má sjá nokkur skemmtileg verk á sýningunni. Gætið að því að þetta er ekki einu sinni brot af því besta. Það langbesta er á sýningunni sjálfri.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd