AmabAdamA heldur afmælistónleika á Kex Hostel

Þau eru nokkuð mörg í hljómsveitinni AmabAdamA.

Þau eru nokkuð mörg í hljómsveitinni AmabAdamA. Lagið Hossa Hossa með AmabAdamA festi sig í heilaberki landsmanna sumarið 2014. Hljómsveitin heldur ókeypis tónleika á Kex Hostel 1. maí.

Gistihúsið og veitingastaðurinn Kex Hostel fagnar fimm ára afmæli um þessar mundir.

En hvað er þetta Kex Hostel?

Staðurinn er við Skúlagötu 28. Þar var einu sinni kexverksmiðjan Frón sem þekkt er fyrir Matarkex og Mjólkurkex og Kremkexið. Langt var síðan verksmiðjan flutti þaðan og þar til nokkrir vinir ákváðu að byggja upp eigin starfsemi í húsinu. Þetta voru knattspyrnukappinn Pétur Hafliði Marteinsson, Kristinn Vilbergsson, handboltahetjan Dagur Sigurðsson og fleiri.

Innréttingar á Kex Hostel eru sérstaklega flottar og hefur margs konar uppákomur verið í húsinu sem henta gestum, jafnt ungum sem öldnum.

Þar hafa verið haldnir frábærir Airwaves-tónleikar lengi og hefur bandaríska útvarpsstöðin KEXP frá Seattle gert út frá Kex Hostel og sent þaðan út frá tónleikum.

Ýmislegt fleira hefur líka verið boðið upp á, svo sem kynning á bókinni Eldum sjálf. Í vor var meðal annars keppt í rúningi og komu kindur á svæðið.

Keppt í rúningu á Kex Hostel.

Heimilislegir sunnudagar

Alla sunnudaga hafa á Kex Hostel verið haldnir heimilislegir sunnudagar. Þetta eru skemmtilegar stundir fyrir börn og foreldra þeirra. Á heimilislegum sunnudögum hafa troðið upp ýmsir skemmtilegir listamenn, rithöfundar, tónlistarfólk og vísindamenn. Þar á meðal eru Lína Langsokkur, Ævar vísindamaður, leikhópurinn Lotta og fleiri. Þá hafa ýmsir viðburðir fyrir börn verið kynntir á heimilislegum sunnudögum.

Fyrsta sunnudag í hverjum mánuði er sérstakt jóga fyrir krakka, sem hefur notið talsverðra vinsælda. Nanna Magnúsdóttir leikkona hefur haldið utan um krakkajógað og heimilislegu sunnudagana.

Krakkajóga á Kex Hostel.

Stóra afmælið!

Allavega. Staðarhaldarar á Kex Hostel hafa haldið upp á afmæli staðarins alla vikuna. Lokahnykkurinn á afmælisveislunni eru stórtónleikar með reggíhljómsveitinni AmabAdamA á baráttudegi verkalýðsins sunnudaginn 1. maí.

Hljómsveitin vinnur að nýrri breiðskífu, sem áreiðanlega er miklu frekar geisladiskur.

Lag fyrir heilabörk

AmabAdamA hafa skapað sér nafn sem ein hressasta og jákvæðasta tónleikasveitin í hinu blómlega tónlistarlífi sem grasserað hefur í Reykjavík síðastliðin misseri. Samhliða tónlistarverkefnum á borð við Hjálma, Ojba Rasta og RVK Soundsystem þá stendur hún styrk á báðum fótum í án ef „norrænustu“ reggísenu sem um getur.

Fyrsta breiðskífa AmabAdamA heitir Heyrðu mig nú og var útgefin 6. nóvember 2014. Þekkt lög af henni eru m.a. Gaia og Hossa Hossa en Hossa stimplaði sig rækilega inn í heilabörk landsmanna sumarið 2014.

Tónleikarnir með AmabAdama hefjast stundvíslega klukkan 13:00 og er frítt inn fyrir alla á meðan húsrúm leyfir.

Nú er bara að skella sér í afmæli!

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd