Allir geta tekið þátt í kassabílarallýi á Akranesi

„Fjölskyldan getur vel dundað sér saman yfir sumarið að búa til kassabíla, endurnýtt gamla hluti í þá, reiðhjól, barnavagna og fleira í þeim dúr,‟ segja þau Ole, Andrea og Helgi, sem eru á lokametrunum með undirbúning fyrir fyrsta kassabílarallý sem haldið hefur verið á Akranesi. Rallýið fer fram við hafnarsvæðið á Faxabrautinni laugardaginn 28. ágúst næstkomandi.

Meira en 20 kassabílar!

Viðbrögðin hafa verið mjög góð á Skaganum því rúmlega tuttugu kassabílar eru skráðir til leik. Keppt verður á tveimur brautum í þremur aldursflokkum.

Þau Ole, Helgi, Andrea hafa heilmikla ástríðu fyrir kassabílum, langaði óskaplega til að halda kassabílarallý á Akranesi og létu vaða.

„Við vitum að við munum ekki geta gert þetta 100%. En til að fá reynsluna þurfum við að renna þessari keppni í gegn, skrá allt niður hjá okkur og geta betur á næsta ári,‟ segja þau.

Ole, Helgi og Andrea leituðu stuðnings fyrirtækja svo keppnin kosti þátttakendur ekki neitt. Með því að halda kostnaði í lágmarki vonast þau líka til að fleiri taki þátt.

Húsasmiðjan gaf efni í 25 kassabíla sem þau Ole, Andrea og Helgi söguðu niður í kassabílasett. Settin fá þátttakendur ókeypis til að setja saman.

TERRA safnaði líka saman dekkjum fyrir bílana á svæði Sorpu og gátu allir sem vildu nálgast þar dekk í kassabílana.   

Að lokum lagði Málningarþjónustan Carlz til efni svo þátttakendur gátu mála bílana sína. Auglýstir voru föndurhittingar og gátu þátttakendur komið til fyrirtækisins á ákveðnum stað, fengið aðstoð við samsetningu bílanna og málum þeirra.

Kassabílasettin má sjá hér að neðan í málun hjá Carlz og síðan einn samansettan bíl.

Hellingur af flottum verðlaunum

Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sæti og flottasta bílinn.

Bíóhöllin á Akranesi gefur nokkra bíómiða, popp og kók í vininga fyrir þrjú efstu sætin, toppbílarnir þrír fá líka þrjár litlar verkfæratöskur sem Redder gefur og að lokum gefur Gamla kaupfélagið peningagjafir; 15.000 krónur fyrir fyrsta sætið, 10.000 krónur fyrir annað sæti og fimm þúsund krónur fyrir það þriðja.

Að auki verður Ísbúðin með kassabílaís handa öllum keppendum á keppnisdaginn mikla. 

Þremenningarnir sem standa að kassabílarallýinu settu saman fjóra bíla úr kassabílasettinu og hafa þeir verið til sýnis á Akratorginu í vikunni. Bílarnir hafa auðvitað vakið mikla eftirtekt og vegfarendur leikið sér í þeim. Stefnt er að því að bílarnir verði á torginu fram yfir rallýið. Í haust verða þeir síðan teknir inn í hús og gerði upp en síðan gefnir leikskólunum og getur yngsta kynslóðin leikið sér í þeim þar.

Ekkert mál að skrá sig

Skráningar fyrir keppendur eru hafnar og er hægt að skrá lið með því að senda skeyti á þetta netfang: kassabilarally@gmail.com

Í skeytinu þurfa að koma fram upplýsingar um keppendur, nafn á liði og nafn á bíl. ásamt tölvupóstfangi og símanúmer hjá aðstoðarmanni/konu (forráðafólki).

Einnig er hægt að skrá lið á https://www.facebook.com/groups/kassabilasmidi.

Á Facebook-síðunni Kassabílasmíði á Akranesi er jafnframt hægt að skoða ýmsar upplýsingar um rallýið.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd