Allir komast í jólaskap á aðventunni á Árbæjarsafni

Það er eldgamall siður að skera út laufabrauð. MYND / Árbæjarsafn

Það er eldgamall siður að skera út laufabrauð fyrir jólin. MYND / Árbæjarsafn

Jóladagskrá Árbæjarsafns í Reykjavík er ómissandi hluti af undirbúningi jólanna í borginni enda leitun að stað sem er eins notalegt og skemmtilegt að heimsækja á þessum tíma árs.

Aðventa er yndislegt á Árbæjarsafni. Þar er jóladagskráin orðin klár. Hún hefst á annan í aðventu, það er sunnudaginn 4. desember og mun hún standa yfir alla aðventuna til þess fjórða 18. desember. Dagskráin hefst alla sunnudagana klukkan 13:00 og lýkur henni klukkan 17:00. Þá er alveg upplagt að fara heim og elda sunnudagssteik upp á gamla mátann og rifja upp með börnunum hvernig lífið var þegar Ríkissjónvarpið var eina sjónvarpsstöðin, beðið var eftir Húsinu á sléttunni, horft á fræðsluefni um misflókin viðfangsefni, sunnudagshugvekju og síðan Stundina okkar.

Fyrir þá sem vilja fyllast fortíðarþrá þá er hér hluti af þætti úr Húsinu á sléttunni.

Jóladagskráin á Árbæjarsafni er á öllu safnasvæðinu og er hún alveg stórskemmtileg. Það er frábært að ganga á milli gömlu húsanna og skoða hvernig jólin voru í eldgamla daga. Jafnvel löngu áður en Ríkissjónvarpið fór í loftið!

Hrekkjóttir jólasveinar gægjast á glugga og kíkja í potta. Börn og fullorðnir dansa í kringum jólatréð og syngja vinsæl jólalög.

Nokkrir liðir eru fastir á jólaaðventunni á Árbæjarsafni. Þeir eru þessir:

  • 14:00 Guðsþjónusta í safnkirkjunni.
  • 15:00 Sungið og dansað í kringum jólatréð.
  • 14:00-16:00 Jólasveinar skemmta gestum og taka þátt í söng og dansi í kringum jólatréð.

 

Aðventa í gömlu húsunum

Þau eru kát skötuhjúin á baðstofuloftinu í gamla bænum á Árbæjarsafni.

Þau eru kát skötuhjúin á baðstofuloftinu í gamla bænum á Árbæjarsafni.

Húsin á Árbæjarsafni bera upprunaleg og skemmtileg nöfn og þar verður ýmislegt skemmtilegt um að vera á aðventunni.

Í Árbænum sitja fullorðnir og börn með vasahnífa og skera út laufabrauð en uppi á baðstofulofti er spunnið og prjónað. Í Kornhúsinu  búa börn og fullorðnir til músastiga, jólapoka og sitthvað fleira. Í Hábæ er hangikjöt í potti sem gestir fá að bragða á. Í Nýlendu má fylgjast með tréútskurði og í Miðhúsum er hægt að fá prentaða jólakveðju. Í Efstabæ er jólaundirbúningurinn kominn á fullt skrið og skatan komin í pottinn. Í hesthúsinu frá Garðastræti eru búin til tólgarkerti og kóngakerti eins og í gamla daga. Jólahald heldra fólks við upphaf 20. aldar er sýnt í Suðurgötu 7 og í Krambúðinni er  kramarhús, konfekt og ýmis jólavarningur til sölu.

Svona eru jólin hugguleg í einu af gömlu húsunum á Árbæjarsafni.

Svona eru jólin hugguleg í einu af gömlu húsunum á Árbæjarsafni.

Hvað kostar?

Fullorðnir 18+ 1.500 kr.

Börn (yngri en 18), ellilífeyrisþegar (70+) og öryrkjar: Ókeypis aðgangur

Menningarkortið veitir ókeypis aðgang að safninu.

 

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd