Sigríður Þorbergsdóttir: Jólabasar Waldorfskólanna er fjölskylduhátíð

Sigríður Þorbergsdóttir hefur átt fjögur börn í Waldorfskólunum og unnið þar sjálf.

„Jólabasarinn er ekki eingöngu fjárhagsstyrkur heldur er þetta hátíð fjölskyldna og vina sem tengjast Waldorfskólunum,“ segir Sigríður Þorbergsdóttir. Hún er fyrrverandi starfsmaður Waldorfskólanna og er í stjórn hollvinasamtaka Waldorfskólans í Lækjarbotnum sem heitir „Vinir Waldorf.“ Fjögur börn hennar hafa líka verið í skólanum.

Facebook-síða jólabasarsins

Sigríður, foreldrar barna í Waldorfskólanum Yl og Waldorfskólanum í Lækjarbotnum og starfsfólk stendur fyrir árlegum jólabasar Waldorfskólanna í Lækjarbotnum í dag. Basarinn opnar á hádegi og stendur til klukkan 17:00.

Waldorfskólar hafa verið starfræktir á Íslandi í næstum 26 ár og hefur basarinn verið til næstum frá fyrsta ári.

Waldorfskólar eru um allan heim. Sigríður segir það viðtekna venju í skólunum alls staðar að vera með basar. Hér á landi hafi jólabasar alltaf verið í nóvember. Sjálf kynntist hún jólabasar Waldorfskólanna fyrir um 17 árum. Allur ágóði af basarnum rennur til Waldorfskólans í Lækjarbotnum og Waldorfskólans Yl.

Ungur gestur á basarnum árið 2013 skoðar skemmtilegar vörur.

Sigríður segir mikið stúss á bak við hvern jólabasar. Það sé vel þess virði.

„Þetta er stærsta hátíð skólanna, allir sem geta og vilja leggjast á eitt við að skapa hana. Þetta er frábært tækifæri að kynnast starfseminni og njóta þeirrar frábæru aðstöðu og umhverfis sem skólarnir hafa upp á að bjóða. Ef nemendur eru spurðir þá vill sko enginn missa af basarnum,“ segir hún.

Þúsund manns á basar

Sigríður segir um viðtökurnar alltaf góðar. Á hverju ári komi rúmlega 1.000 manns – alveg sama hvernig viðrar. „Í Lækjarbotnum er alltaf „gott“ veður þótt Vetur konungur ríki úti,“ bætir hún við.

„Á hverju ári fjölgar fólkinu á basarnum sem kemur til að njóta. Það er svo ótalmargt að gera fyrir alla, tónlistarflutningur, barnakaffihús þar sem fullorðnir fá einungis aðgang með barni, brúðuleikhús, pizzusala og að sjálfsögðu girnilegt kökuhlaðborð. Ef þú ert ekki svangur nú þá skellirðu þér í brekkuna og rennir þér á sleða, eða kíkir í járnsmiðjuna og síðast en ekki síst kaupir þér fallega hluti eða te og krem úr jurtaapótekinu. Af nógu er að taka fyrir stóra og smáa,“ segir Sigríður.

Spurð að því hvort hana hlakki alltaf jafn mikið til jólanna svarar Sigríður:

„Ó já, ég hlakka alltaf til jólanna!“

Waldorfskólinn í Lækjarbotnum í ríki Veturs konungs.

Jólabasarinn í hnotskurn

  • Handverkssala
  • Barnakaffihús
  • Brúðuleikhús
  • Jurtaapótek
  • Veiðitjörn
  • Kaffi og kökur
  • Eldbakaðar pizzur í skemmunni
  • Skemmtiatriði í leirkofanum og tónleikar klukkan 15:00 og 16:00.
  • Brúðuleikhús í græna húsinu klukkan 13:30, 14:30 og 15:30.

Það er stutt í Lækjarbotna frá Reykjavík.

Beygt er til hægri inn afleggjarann fyrir ofan Lögbergsbrekku sem er fyrsta brekkan þegar ekið er frá Reykjavík austur þjóðveg 1. Það eru skilti við veginn.

 

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd