Nú stendur yfir rafræn kosning á vefnum kosning.reykjavik.is. Þar geta íbúar í Reykjavík fæddir árið 2000 eða fyrr kosið um ýmsar áhugaverðar lagfæringar og endurbætur í borginni.
Úllendúllen kynnti sér málið og rakst á margar skemmtilegar og áhugaverðar tillögur. Hér á eftir eru rakin nokkur dæmi.
Endurbætur á leiksvæðum, ungbarnarólur, barnavænar ruslatunnur og margt fleira
Vestur í bæ er tillaga að ungabarnarólum með foreldrasæti, endurbótum á bláa róló á horni Túngötu og Bræðraborgarstíg og leiksvæðinu við Öldugötu.
Á Kjalarnesi standa til boða aparóla, snúningstæki og fleira skemmtilegt á leiksvæðinu við Esjugrund og barnvænar ruslatunnur.
Þær standa líka íbúum í Grafarholti og Úlfarsárdal til boða ásamt fisbígolfvelli í Leirárdal og dvalarsvæði með leiktækjum fyrir yngri börn í Úlfarsárdal.
Í 101 stendur valið t.d. milli þess að fjölga leiktækjum við Austurbæjarskóla, lagfæra leiksvæðið við Bjarnarstíg eða útbúa vaðlaug í Hljómskálagarðinum.
Í Grafarvoginum stendur til boða að bæta við rennibraut við sundlaugina, fá fleiri ungbarnarólur í hverfið og að fá fleir leiktæki við Gufunesbæinn.
Í Breiðholtinu bjóðast fleiri hjólastandar í hverfið, fjölskyldusvæði í efra Breiðholt og bætt leiksvæði við Unufell.
18 holu frísbígolfvöllur í Öskjuhlíð er einn af valmöguleikum þeirra sem búa í Hlíðunum ásamt endurbótum á leikvellinum á mótum Víðihlíðar og Reynihlíðar og endurnýjun körfuboltavallar við Hlíðarskóla.
Endurbætt leiksvæði við Miðtún, fleiri leiktæki við orminn langa í Laugardalnum og dorgpallur vestan Laugarness stendur íbúm í Laugarneshverfi og nágrenni Laugardalsins til boða.
Í Árbænum má kjósa um fleiri leiktæki á lóð Selásskóla, leiktæki fyrir yngri börn við í Norðlingaholti og gangbrautarljós á Selásbraut til móts við Reykás.
Að lokum má nefna að í Háaleitis- og Bústaðahverfinu er hægt að velja um ungbarnarólur með foreldrasæti, lagfæringar á leiksvæðinu við Rauðagerði og fegrun leiksvæðisins í Úlfaskógi.
Tökum tillit til þarfa fjölskyldunnar í Reykjavík
Tillögurnar eru mjög fjölbreyttar og misdýrar líka, sumar ódýrar á meðan aðrar kosta tugi milljóna.
Úllendúllen hvetur alla sem kosningarétt hafa til að kynna sér kosningareglurnar á vef Reykjavíkurborgar og að sjálfsögðu tillögurnar sjálfar.
Hafið þá yngri með í ráðum og takið tillit til þeirra þegar kosið er.