Mörgum finnst gaman að fara á áramótabrennur á Gamlárskvöld og skjóta upp flugeldum.
Áramótabrennur hafa tíðkast á Íslandi. Fram kemur á Vísindavefnum að elsta þekkta frásögnin um brennur um áramót sé frá árinu 1791 þegar greint er frá því að piltar við Hólavallaskóla í Reykjavík hafi haldið brennur á hæð skammt frá skólanum. Talið er að það hafi verið Landakotshæð.
Rúmlega 100 ára hefð
Á 19. öld breiddist siðurinn út um Reykjavík og síðan um aldamótin á einstökum sveitabæjum. Sums staðar á Suður- og Vesturlandi var reynt að haga svo til að kveikt væri í bálkestinum á sama tíma á öllum bæjum í byggðarlaginu svo að hver sæi til annars. Við upphaf 20. aldar voru brennur orðnar algengar hér á landi.
En hvar eru þessar blessaðar stórskemmtilegu brennur? Brennurnar eru álíka margar og sveitarfélögin í landinu og stundum fleiri. Hentugasta ráðið til að finna brennu er að fletta upp heimasíðu viðkomandi sveitarfélags.
Hvar eru þessar brennur?
Áramótabrennur verða á 10 stöðum í Reykjavík á Gamlárskvöld. Þær verða á eftirfarandi stöðum og kveikt í ákveðnum tímum.
- Við Ægisíðu, stór brenna.
- Skerjafjörður gegnt Skildinganesi 48 – 52, lítil brenna (tendrað kl. 21.00, eftir blysför sem hefst kl. 20.30).
- Við Suðurhlíðar, neðan við Fossvogskirkjugarð, lítil brenna.
- Vestan Laugarásvegar móts við Valbjarnarvöll, lítil brenna.
- Geirsnef, stór brenna.
- Við Suðurfell, lítil brenna.
- Fylkisbrennan við Rauðavatn, stór brenna.
- Gufunes við gömlu öskuhaugana, stór brenna.
- Kléberg á Kjalarnesi, lítil brenna.
- Úlfarsfell á athafnasvæði Fisfélagsins ofan við Lambhagaveg, lítil brenna (tendrað kl. 15.00)
Hafnarfjörður
- Bál verður tendrað í áramótabrennur á Ásvöllum, íþróttasvæði Hauka á Völlunum í Hafnarfirði, klukkan 20:30. Knattspyrnufélagið Haukar og Hafnarfjarðarbær standa saman að brennunni.
Kópavogur
- Tvær brennur eru í Kópavogi. Ein við Smárahvammshvöll Í Kópavogsdal og Þingabrenna í Gulaþingi. Kveikt verður í báðum brennum klukkan 20.30. Flugeldasýning Hjálparsveita skáta sem haldin er hjá áramótabrennunni við Smárahvammsvöll hefst kl. 21.10.