Hvað er að gera á Vetrarhátíð?

Myrkrið er lýst upp með ýmsum hætti á Vetrarhátíð. Þetta listaverk var sett upp í tengslum við hátíðina árið 2012. MYND / Ragnar Th. Sigurðsson

Myrkrið er lýst upp með ýmsum hætti á Vetrarhátíð. Þetta listaverk var sett upp í tengslum við hátíðina árið 2012. MYND / Ragnar Th. Sigurðsson

Vetrarhátíð er skemmtilegur viðburður sem haldinn er á höfuborgarsvæðinu. Sex sveitarfélög taka þátt í hátíðinni. Vetrarhátíð hefur verið haldin á hverju ári í byrjun febrúar frá árinu 2002 og hefur áherslan ávallt verið að þar sé eitthvað að finna fyrir bæði börn og fullorðna.

En hvað er að gera á Vetrarhátíð? Þið getið alltaf fundið eitthvað að gera í viðburðadagatali Úllendúllen.

Á vefsíðu Vetrarhátíðar eru allir viðburðirnir taldir upp.

Vetrarhátíð stendur yfir í fjóra daga, að þessu sinni frá fimmtudeginu 4. febrúar til sunnudagsins 7. febrúar.

Upphaflega einskorðaðist Vetrarhátíðin við Reykjavík. Nú hafa hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu bæst í hópinn og eru þau sex talsins sem þátt taka í hátíðarhöldunum.

Vetrarhátíð síðan árið 2002

Fyrsta Vetrarhátíðin stóð yfir dagana 27. mars til 3. mars og var lagt upp með að hún yrði eins og Menningarnótt. Í tilefni hátíðarinnar var háspennumastur sett upp á Arnarhóli og það lýst upp í tengslum við hátíðina Ljós í myrkri. Mastur þetta vakti ómælda athygli þeirra sem áttu leið um miðborgina, að því er sagði á fréttavef Morgunblaðsins sem á þessum tíma var aðeins nokkurra ára gamall.

Á meðal þess sem boðið var upp á á þessari fyrstu Vetrarhátíð var sýning Samtak iðnaðarins „Construct North“ sem var um hönn­un, tækni og mann­virkja­gerð á norður­slóðum.

Í tengslum við hátíðina voru haldnir fyrirlestrar, svo sem um myrk­fælni, skamm­deg­isþung­lyndi og sagðar drauga­sög­ur, kveðnar rím­ur og haldn­ar kvöld­vök­ur með þjóðdöns­um. Grunnskólar voru líka virkjaðir og hafði hver bekkjardeild í skólum gert verk­efni tengt ljósi, myrkri, hita og kulda.

Safnanótt bætist við

Árið 2005 varð Safnanótt við Vetrarhátíð í Reykjavík. Þetta var fjórða skiptið sem Vetrarhátíð var haldin og fór hún fram dagana 17.- 20 febrúar. Safnanóttin var haldin á föstudagskvöldinu og buðu söfn borgarinnar upp á ókeypis aðgang, ásamt ýmsum viðburðum, tónleikum og leiðsögn til miðnættis.

Risastór Vetrarhátíð í fjóra daga

Vetrarhátíðin 2016 er fjögurra daga festival fyrir fjölskylduna. Meginstoðirnar eru fjórar: Safnanótt, Sundlauganótt, Snjófögnuður og ljósalist ásamt 150 viðburðum sem þeim tengjast. Megintilgangur Vetrarhátíðar er að skemmta fólki á höfuðborgarsvæðinu og gefa því tækifæri til að njóta menningar og útiveru í eigin sveitarfélagi og/eða heimsækja nágranna sína í nærliggjandi sveitarfélagi. Höfuðborgarstofa hefur yfirumsjón með hátíðinni og eru allir viðburðir á henni ókeypis.

Dagskrá Vetrarhátíðar í stuttu máli 

4. febrúar – fimmtudagur / klukkan 19.30: Opnunarkvöld við Hörpu, ljósalistaverk og snjóbrettapartý.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setur Vetrarhátíð og afhjúpar verkið Slettireku.

ATHUGIÐ Búið er að fresta skíða- og snjóbrettapartýinu um einn dag. Það verður á Arnarhóli föstudaginn 5. febrúar og hefst klukkan 19:00.

 

5. febrúar – föstudagur / klukkan 19-24: Safnanótt í tæplega 40 söfnum.

Safnanótt

Safnanótt verður haldin föstudagskvöldið 5. febrúar en þá opna tæplega fjörtíu söfn á öllu höfuðborgarsvæðinu dyr sínar frá kl. 19 og bjóða upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá til miðnættis. Íbúar og gestir borgarinnar á öllum aldri geta notið yfir 100 viðburða af öllum stærðum og gerðum á söfnum á höfuðborgarsvæðinu. Hægt verður að taka þátt í Safnanæturleiknum en heppnir gestir geta m.a. unnið árskort á söfn, listaverkabækur og fleira. Sérstakur Safnanæturstrætó gengur á milli safnanna á öllu höfuðborgarsvæðinu og auðveldar gestum heimsóknina. Miðstöð Safnanæturstrætó verður á Kjarvalsstöðum.

 

6. febrúar – laugardagur / klukkan 16-24: Sundlauganótt í 10 sundlaugum.

Sundlauganótt

Sundlauganótt verður haldin laugardagskvöldið 6. febrúar en frítt verður í sund frá klukkan fjögur til miðnættis í 10 sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu. Gestir fá að upplifa einstaka kvöldstund í sundlaugunum þar sem ljós, myrkur og gleði verða allsráðandi. Dagskráin í ár er afar fjölbreytt en meðal þess sem er í boði er jóga, dans, sundpóló og  kórgjörningur í gufubaði.  Nú þurfið þið bara að skella ykkur í sund!

 

7. febrúar – sunnudagur / Snjófögnuður í Bláfjöllum.

Snjófögnuður

Við fögnum svo snjó og birtu í Bláfjöllum sunnudaginn 7. febrúar á lokadegi Vetrarhátíðar þar sem íbúum höfuðborgarsvæðisins er boðið að njóta skemmtilegrar viðburðadagskrár. Plötusnúður mætir á svæðið og skemmtir frá kl. 14-16. m.a. Frítt er fyrir 15 ára og yngri í fjallið auk þess sem 20% afsláttur er veittur af leigu á skíðabúnaði.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd