Húlladúllan Unnur með heljarinnar húllafjör á Menningarnótt

MYND: Logi Ragnarsson

MYND: Logi Ragnarsson

Húlladúllan Unnur María Bergsveinsdóttir verður á ferð og flugi um bæinn á Menningarnótt að kenna gestum sitthvað um þá list að snúa húllahringjum. Unnur María lærði sagnfræði en fór svo  seinna til Mexíkó og hefur unnið með sirkusum bæði þar og hér heima – en axlarmeiðsli leiddu hana út í húllið.

„Áður en ég fór að húlla hafði ég fengist við hinar ýmsu sirkuslistir. Ég hafði stundað loftfimleika og acro yoga í nokkur ár, djögglað, gengið á stultum í skrautlegum búningum, hjólað um á einhjóli og trúðast. Ég hafði meitt mig á öxl og ákvað, fyrst ég þurfti að taka mér pásu frá því að klifra í loftfimleikasilkinu, að nýta tímann til að læra nokkur húllatrix. Og svo komst ég að því að það er svo gaman að húlla að ég hef varla lagt húllahringinn frá mér síðan!“ segir Unnur.

MYND: Magnús Þór Einarsson

MYND: Magnús Þór Einarsson

En hvað gerir húllið svona skemmtilegt?

„Það er svo margt skemmtilegt við húllið. Það er skemmtileg áskorun að læra tæknilega flókin trix. Svo er líka yndisleg tilfinning að sveifla sér með hringinn í góðu flæði við góða tónlist án þess að hugsa of mikið.“

En er húll ekki frekar einfalt sport? Þarf maður að hafa eitthvað mikið fyrir þessu?

„Það er bæði einfalt og flókið að húlla. Það að ná góðu valdi á hringnum snýst einfaldlega um rétta líkamsbeitingu og með góðum leiðbeiningum er einfalt að ná valdi á henni. En svo er auðvitað hægt að læra sífellt flóknari tækni og trix og það eru ótal mismunandi leiðir til þess að leika með húllahringinn. Og svo má alltaf bæta við húllahringjum.“

Sirkushúll og húllagerð

Ef maður er orðinn nógu flinkur í húlli til að húlla allan daginn – hvað er þá næsta skref ef maður vill gera eitthvað erfiðara?

„Þá er næsta skref að samþætta eitthvað annað við húllið eða þróa sig áfram í tilteknum stíl. Ég til dæmis hef mikinn áhuga á því að blanda saman húlli og fimleikastælum.“

Mynd: Logi Ragnarsson

Mynd: Logi Ragnarsson

En hvernig húllar maður í sirkusnum?

„Á meðan að húlladans gengur út á danstækni, flæði, tjáningu og útpælda samfléttun trixa þá er áherslan í sirkushúlli lögð á sífellt flóknari trix og sífellt fleiri húllahringi. Eins og aðrar sirkuslistir þá snýst sirkushúllið um það að koma áhorfandanum aftur og aftur á óvart og fá salinn til að taka andköf.“

Nú ertu menntaður sagnfræðingur; hvað geturðu sagt mér um sögu húllsins?

„Hringir hafa lengið verið meðal sirkusáhalda en sjálft húllið er þó tiltölulega nýtt sirkussport. Fjöldaframleiddir húllahringir úr plasti komu fram á sjónarsviðið árið 1958 þegar leikfangaframleiðandi í Kaliforníu hóf framleiðslu þeirra. Markaðssetningin tókst svo vel að fyrstu tvö árin seldust rúmlega hundrað miljón húllahringir! Dægurlagasöngvarar sungu um húllahopp og heimsbyggðin húllaði með. Húlladellan dvínaði á áttunda áratugnum en tók svo aftur kipp rétt fyrir síðustu aldamót þegar húllalistin tók að tengjast dansi og tilraunagleði af ýmsu tagi.“

Unnur dansar ekki bara með húllahringi, hún býr þá líka til – bæði fyrir sjálfa sig og aðra. En hvað þarf til að gera góðan húllahring?
„Galdurinn er vandvirkni og þolinmæði. Það krefst lagni að setja hringinn þannig saman að hann sé traustur og vandvirkni er þörf til að skreytingin verði jöfn og falleg.“

MYND: Magnús Þór Einarsson

MYND: Magnús Þór Einarsson

 

32 hringir

Við geymdum svo auðvitað aðalspurninguna þangað til síðast – en hvað hefur Unnur mest húllað með marga hringi í einu?

„Ég hef mest húllað með 32 hringi í einu. En ég stefni að sjálfsögðu á það að slá það met næsta vor!“

Eins og áður segir verður Húlladúllan á ferð og flugi á menningarnótt. Þið getið húllað með henni, í sérstakri sixtíssveiflu, við Þjóðminjasafnið klukkan þrjú, á Óðinstorgi klukkan 16:30 og um kvöldið getið þið séð hana leika með eld við Völundarhús Asks Yggdrasils við ferðasendiráð Rockall við Vesturbugt á Grandanum.

MYND: Joshua Meier

MYND: Joshua Meier

Hvað ætlið þið að gera á Menningarnótt 2016?

Við tókum saman áhugaverða viðburði á Menningarnótt sem hentar fyrir alla fjölskylduna. Smellið og skoðið Menningarnótt.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd