Húlladúllan Unnur María Bergsveinsdóttir stýrir Húllahringjasmiðju í Sjóminjasafninu í Reykjavík sunnudaginn 30. maí. 2021. Þar fá krakkar á öllum aldri tækifæri til þess að búa til sinn eigin húllahring.
Þátttakendur fá í hendurnar sérsniðinn húllahring sem þau síðan skreyta með flottu og litríku límbandi undir leiðsögn Húlladúllunnar. Í lok smiðjunnar kennir Húlladúllan skemmtileg húllatrix og svo allir geti húllað saman.
Smiðjan er fyrir allan aldur og kostar 3.000 krónur en innifalið í gjaldinu er kennsla og einn hágæðahúllahringur, settur saman af Húlladúllunni. Athugið þó að tíu ára og yngri verða að mæta í fylgd foreldra eða eldri systkina.
Hvað gerir húllið svona skemmtilegt?
Húlladúllan hefur svarað því í viðtali við ullendullen.is:
„Það er svo margt skemmtilegt við húllið. Það er skemmtileg áskorun að læra tæknilega flókin trix. Svo er líka yndisleg tilfinning að sveifla sér með hringinn í góðu flæði við góða tónlist án þess að hugsa of mikið.“
Þarf maður að hafa eitthvað mikið fyrir þessu?
„Það er bæði einfalt og flókið að húlla. Það að ná góðu valdi á hringnum snýst einfaldlega um rétta líkamsbeitingu og með góðum leiðbeiningum er einfalt að ná valdi á henni. En svo er auðvitað hægt að læra sífellt flóknari tækni og trix og það eru ótal mismunandi leiðir til þess að leika með húllahringinn. Og svo má alltaf bæta við húllahringjum.“
Hvað þarf til að gera góðan húllahring?
„Galdurinn er vandvirkni og þolinmæði. Það krefst lagni að setja hringinn þannig saman að hann sé traustur og vandvirkni er þörf til að skreytingin verði jöfn og falleg.“
Mikilvægt að skrá sig í húllasmiðjuna
Skráning er nauðsynleg en hún fer fram á https://forms.gle/gwwP5CQUEdRNC2Ns7. Tekið er við skráningum til og með 28. maí. Fyrstir koma, fyrstir fá! Athugið að fjöldi þátttakenda fer eftir þeim takmörkunum sem sóttvarnarreglur setja okkur og því er um að gera að skrá sig sem fyrst.