Viðtal: Sabínu finnst gaman að valhoppa í Hreyfiviku UMFÍ

Sabína hefur alltaf haft gaman af útivist og hreyfingu.

Hreyfivika UMFÍ hefst á mánudag. Hreyfivikan er samevrópskt verkefni sem hefur það að markmiði að fá fólk til að finna hvað það er gott að hreyfa sig í að minnsta kosti hálftíma á hverjum degi.

Hreyfivikan fer fram fram um allt land. Einstaklingar út um allt hafa skipulagt alls konar viðburði sem fela í sér hreyfingu í allskonar myndum. Í kringum 20 viðburðir verða í Hólmavík alla vikuna sem Hreyfivikan stendur yfir, Seyðisfjörður verður undirlagður af hreyfingu, ratleikir verða í Hafnarfirði og svo má lengi telja.

Hreyfivika UMFÍ stendur frá 29. maí til 4. júní.

Á vefsíðunni Hreyfivika.is má sjá alla viðburðina sem verða í boði.

 

Farið af stað á forsendum barnanna

Sabína Steinunn Halldórsdóttir hjá Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ) hefur séð um Hreyfivikuna frá árinu 2012.

Við spurðum Sabínu nokkurra spurninga um Hreyfivikuna.

Af hverju þarf að taka þátt í Hreyfiviku UMFÍ?

„Af því að hreyfing skiptir máli – við kappkostum það að fjölga þeim sem finna sína uppáhalds hreyfingu. Hreyfing er ekki bara mikilvæg fyrir líkamlega heilsu heldur hefur hún jákvæð áhrif á andlega og ekki síst félagslega heilsu. Við hvetjum fólk til að finna sína uppáhalds hreyfingu af því að rannsóknir sína að ef þú hefur gaman að því sem þú ert að gera þá eru meiri líkur á því að þú viðhaldir þátttökunni og þá verður lífsstíls breytingin – ef þér finnst leiðinlegt að gera eitthvað þá eru ekki miklar líkur á því að þú gerir það aftur og aftur. Einmitt í Hreyfiviku UMFÍ gefst fólki kostur á að prófa allskonar hreyfingu og íþróttir – á mörgum stöðum er verið að blanda saman fræðslu og hreyfingu og þá gleymum við því jafnvel að við séum að hreyfa okkur – en verðum fyrir jákvæðum áhrifum á alla þætti heilsunnar. Svo er þetta bara svo gaman.“

Hefur þú alltaf haft gaman af því að hreyfa þig?

„Já áhugamál mín snúast öll að hreyfingu og íþróttum. Ég æfði allskonar íþróttir sem krakki og í dag æfi ég blak. Fyrir utan skipulagðar æfingar þá hreyfi ég mig daglega, hvort sem það er hjóla, synda, ganga, skreppa á fjall gangandi eða á skíðum eða annað sem mig langar að gera en sæki sérstaklega mikið út í náttúruna.  Síðan er ég svo lánsöm að hafa atvinnu að því að fást við lýðheilsu daglega bæði hjá UMFÍ og verið stundakennari í Háskólunum síðast liðin ár í skyldum fögum.“

Hver er uppáhalds hreyfingin þín?

„Uppáhalds hreyfing – það má svara þessu á tvo vegu. Skíðin eru algjörlega í uppáhaldi, það er fátt skemmtilegra en að fara á skíði og tala nú ekki um þegar maður kemst í alvöru fjöll. Síðan samtvinna ég mín tvö helstu áhugamál, hreyfingu og ljósmyndun og nýti tækifærin sem gefast til að vera úti í náttúrunni og sjá fegurðina í litlu hlutunum. Annars finnst mér valhopp sem stök hreyfing mjög skemmtileg – af því að það er ekki sjens að valhoppa í vondu skapi, ef maður valhoppar þá er maður glaður og kátur.“

Hreyfir fjölskyldan þín sig mikið eða hvatti hún þig til að hreyfa þig?

„Ég er alin upp við það að ganga mikið og vera mikið úti í náttúrunni.  Mínar fyrstu bernskuminningar eru frá gönguferðum með mömmu eldsnemma á morgnana heima í sveitinni. Eins var amma mín dugleg að taka okkur systkinin með á gönguskíði og sund. Svo það má segja að ég hafi fengið gott hreyfiuppeldi og verið virk síðan.“

Geturðu gefið foreldrum og forráðamönnum barna hugmynd um hreyfingu fyrir fjölskylduna?

„Ekki spurning, þegar kemur að því að hreyfa sig saman sem fjölskylda þá skiptir mestur máli að fara af stað á forsendum barnanna og hlusta á þeirra skoðanir og langanir. Ef barn elst upp við virka hreyfingu strax frá byrjun þá eykur það líkurnar á því að barnið viðhaldi slíkum lífsmáta. Ekki flækja hlutina bara það að fara út á næsta leikvöll með bolta og vera saman er frábær hreyfing og hefur áhrif á alla þætti heilsunnar – en það skiptir máli að allir séu virkir og skilji símana eftir heima.“

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd