„Ég vona að flestir þátttakendur haldi áfram að skrifa eftir smiðjuna, vinni áfram með þær sögu sem þau byrja á og hugsið dálítið öðruvísi um skapandi skrif og lestur eftir hana,“ segir Markús Már Efraím. Í tilefni af hrekkjavökunni stýrir hann hrollvekjuritsmiðju fyrir börn á 1. hæð Borgarbókasafnsins í Grófinni við Tryggvagötu sunnudaginn 29. október.
Þar vonast hann til að geta kennt börnunum að hræða líftóruna úr fjölskyldu, vinum og nágrönnum með hryllilegum sögum.
Meira um hrollvekjuritsmiðjuna
Markús Már hefur unnið með krökkum síðan hann var næstum því krakki sjálfur og hefur hann leiðbeint börnum í skapandi skrifum við frístundaheimili, skóla og söfn borgarinnar. Markús er líka mikill aðdáandi hrollvekja og árið 2015 ritstýrði hann og gaf út hrollvekjusafnið Eitthvað illt á leiðinni er, sem skrifað var af 8-9 ára nemendum hans og hlaut tvær tilnefningar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur.
Markús er mikill vinur Úllendúllen enda hefur hann oft verið í viðtali á vefnum.
Markús og synir finna viðburðina á Úllendúllen
Viðtal: Markús eflir læsi barna með hryllingi
Vonar að börnin skrifi meira
Markús segir ekkert aldurtakmark í hryllingsritsmiðjuna, hún henti þó líklega best börnum 8 ára og upp úr. Miða má við að þau geti skrifað eigin texta.
En hvað vonar Markús að þau læri?
„Ritsmiðjan er auðvitað stutt. En ég mun fara í hluti eins og sögusvið, persónusköpun og andrúmsloft í sögum. Börnin munu læra nokkur undirstöðuatriði skapandi skrifa, en með áherslu á draugasögur og hrollvekjur og nýta eigin reynslu eða ótta sem efnivið í sögurnar.“
Markús mælir með því að börn sæki fleiri ritsmiðjur og æfi sig í skrifum svo þau geti sent inn efni í handrita- og smásagnakeppni sem KrakkaRÚV er að setja í gang.
Hrollvekjuritsmiðja Markúsar verður sem áður segir í Borgarbókasafninu við Tryggvagötu. Hún hefst klukkan 14:00 og stendur til klukkan 16:00.