
Góð stemning var á útimarkaðnum sem endranær þegar hann var haldinn á Laugatorgi á horni Laugalæks og Hrísateigs árið 2012. MYND / ÍL
„Ég þekki konu sem gat orðið hvergi fengið neitt í bollastell sem hún safnar. Þegar hún kom á útimarkaðinn okkar í hverfinu fann hún tvo hluti í stellið sem voru fyrir löngu orðnir ófáanlegir. Hlutina fékk hún fyrir 200 krónur,“ segir Hildur Arna Gunnarsdóttir, einn skipuleggjenda útimarkaðar Íbúasamtaka Laugardals (Voga-, Langholts- og Laugarneshverfi).
Markaðurinn hefur verið haldinn síðastliðinn áratug helgina eftir Menningarnótt í Reykjavík og helgina eftir að grunnskólar hefjast eftir sumarið. Hann verður nú á laugardag, 29. ágúst næstkomandi frá klukkan 11 til 16.
Tekið til í geymslunum
Ákveðið var að halda markaðinn upphaflega svo fólk geti veitt hlutum úr geymslum sem það var hætt að nota framhaldslíf á heimilum annarra, skapa skemmtilegan hverfisbrag og gera íbúum kleift að gera eitthvað skemmtilegt saman. Fyrsti markaðurinn var haldinn á planinu hjá Menntaskólanum við Sund og hefur aldrei verið á sama stað.
Gríðarstór markaður
Hildur hefur komið að skipulagningu markaðarins síðan hún flutti í Laugardalshverfið. Markaðurinn er orðinn gríðarstór, fastur viðburður hjá mörgum bæði innan hverfisins og utan þess.
Eins og Hildur benti á má finna margt gott á markaðnum, sjaldgæfar plötur og geisladiska, föt, grænmeti, leikföng, listmuni, húsgögn, handverk, heimagerðar sultur, bækur og ber. Leita þarf vel að demöntum og sjaldgæfum hlutum enda þegar skráðir um 160 manns á sölubásum.
Hvað er búist við mörgum?
„Við höfum verið með vana fuglateljara á markaðnum. Þegar mest var töldu þeir 10.000 manns. Við búumst við þúsundum,“ segir Hildur og vill ekki nefna nákvæmari tölu.

Harmonikkuleikararnir hafa spilað á markaðnum frá upphafi í boði Hrafnistu. Hér spila þau fyrir Guttorm og gesti á Laugarásvegi 2010. MYND / ÍL
Farðu á svið!
Hildur lofar miklu húllumhæi á markaðnum á laugardag. Í gegnum árin hefur líka verið boðið upp á tónlistaratriði. Þetta árið er engin undantekning en troða upp margir tónlistarmenn og hljómsveitir sem tengjast hverfinu með einum eða öðrum hætti.
Svavar Knútur er orðinn fastagestur á útimarkaðnum. Harmonikkubandið verður líka á svæðinu en það hefur vakið mikla lukku í gegnum árin. Aðrir tónlistarmenn og hljómsveitir sem troða upp eru hljómsveitin Muscycle, sem leikur á ný hljóðfæri úr gömlu rusli, hljómsveitin Helíu, Blue Ice Project, Lily of the Valley og Mentos Brass.
Nánari upplýsingar má finna á Facebook-síðu Útimarkaðarins.
ATHUGIÐ! Útimarkaðurinn átti upphaflega að vera á bílastæðamarkaðnum framan við Laugardalsvöll. Búið er að færa hann að Laugardalshöll.
[ad name=“POSTS“]