Hafnarfjörður: Hellisgerði er ævintýrastaður

Hellisgerði í Hafnarfirði er skemmtilegur staður. Huldufólk og álfar er sagt búa þar.

Hellisgerði í Hafnarfirði er skemmtilegur staður. Huldufólk og álfar er sagt búa þar.

Það er alltaf gaman að koma í fallega skrúðgarða sem koma á óvart. Hellisgerði í hrauninu í Hafnarfirði er einn slíkra staða.

Hellisgerði er næstum 100 ára gamall garður. Hann varð til 15. mars árið 1922 fyrir tilstuðlan Málfundafélagsins Magna. Félagið stofnuðu þeir Valdimar Long bóksali og Þorleifur Jónsson forstjóri, sem var afi tónlistarmannsins og Hafnfirðingsins Björgvins Halldórssonar. Á einum af fundum félagsins árið 1922 var rætt um það hvernig félagið geti haft áhrif á útlit bæjarins. Sú hugmynd kom upp að setja upp blóma- og skemmtigarð sem yrði prýði fyrir bæinn, þar sem bæjarbúar gætu haft ánægju af að heimsækja og vekja jafnframt áhuga þeirra á blómum og trjárækt.

Félagar í Málfundarfélaginu höfðu hug á svæði sem hafði verið girt af í kringum Fjarðarhelli seint á 19. öld og var þar kominn trjálundur. Trjálundurinn þar hét Hellisgerði. Í dag er Fjarðarhellirinn í miðju Hellisgerðis. Hellisgerði var svo opnaður sem skrúðgarður sumarið 1927 og opinn aðeins á sunnudögum í meira en tíu ár.

Krókóttir stígar

Hafnfirðingar hafa frá upphafi verið stolti af Hellisgerði og hafa margir sótt hann í gegnum tíðina.

Í Hellisgerði er mikið af fallegum gróðri, trjám og blómum og krókóttum malarstígum. En þar er líka tjörn með gosbrunni sem er staðsettur í dýpstu gjótunni í garðinum. Viltu vita meira um sögu Hellisgerðis?

Hafnarfjörður huldufólksins

Langt er síðan farið var að tala um Hafnarfjörð sem bæ álfa og huldufólks. Á vef Hafnarfjarðarbæjar segir að margir hafi talið sig verða vara við hvítklædda konu með silfurbeltið sem sögð er búa í Hamrinum, höll álfanna.

Þar segir frá konu sem bjó lengi í grennd við Hamarinn. Hana dreymdi að henni væri boðið að koma inn í Hamarinn. Leiddi hvítklædd kona hana um glæsileg híbýli hallarinnar. Þegar þær gengu um salarkynnin sá konan margt skringilega klætt fólk. Það var allt í marglitum klæðum og hneigði sig þegar það sá álfkonuna. Þessi draumur renni stoðum undir þá kenningu að í Hamrinum búi álfar af konungakyni.

Hulinsheimar í Hellisgerði

Í Hellisgerði er miðstöð álfa og huldufólks þar sem fyrirtækið Álfagarðurinn hefur bækistöð  Þar kynnir Ragnhildur Jónsdóttir sjáandi hinar fjölbreyttu verur garðsins fyrir gestum. Fram kemur í viðtali við Ragnhildi og Lárus Vilhjálmsson, mann hennar, að þau standi fyrir rólyndisgöngur gegnum garðinn og sýni hún þar hvar í garðinum álfarnir búa. Að því loknu gæði fólk sér á tebolla eða kaffi og ræði málin.

Hjónin hafa gefið út tvær bækur um smáfólkið í hólunum í Hellisgerði. Ein bókanna fjallar um það hvað þurfi til að sjá álf. Þar er lýst þeim aðferðum sem þarf til að koma augu á huldufólk.

Í Hellisgerði er hægt að fræðast um álfa og huldufólk hjá þeim Ragnhildi og Lárusi. Það er líka hægt að skoða vef þeirra, Álfagarðurinn.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd