Heimsókn á kaffihús: Huggulegt á haustin

Kaffihús - heitt súkkulaði með rjóma

Þessari ungu konu finnst gaman að kíkja á kaffihús og fær sér þá gjarnan heitt súkkulaði með rjóma.

Það getur verið kósí og skemmtilegt að kíkja saman á kaffihús núna þegar haustið er komið og veturinn er alveg á næsta leyti.

Tilvalið er að fá sér göngutúr í bænum og virða fyrir sér mannlífið, kíkja í búðarglugga og njóta þess að vera til og enda síðan ferðina í einhverjum af fjölmörgum kaffihúsum miðbæjarins.

Kaffihús: fjölbreytt mannlíf og ljúffengar veitingar

Á kaffihúsum bæjarins er gaman að virða fyrir sér mannlífið, njóta ljúffengra veitinga og ræða landsins gagn og nauðsynjar. Eins og allir vita þá er Reykjavík orðin mikil ferðamannaborg og yfirleitt eru kaffihúsin þétt setin af útlendingum. Gaman getur verið að hlusta eftir þeim fjölmörgu tungumálum sem berast úr öllum áttum, reyna greina þau í sundur og kasta tölu á fjöldann.

En hvað á maður að fá sér? Flest betri kaffihús bjóða uppá heitt súkkulaði með rjóma, kaffi og te í ýmsum útgáfum sem og gos og svaladrykki af ýmsu tagi. Ef maður sækist eftir að fá smá hlýju í kroppinn er súkkulaðið tilvalið fyrir yngri kynslóðina en þeir sem eldri eru eru oft sólgnari í kaffið þó allur gangur sé á því.

Og um hvað á að ræða? Umræðuefnin eru í raun óþrjótandi. Margir krakkar eru viljugir til að tala um eigin upplifanir, skoðanir og tilfinningar og koma sér beint að efninu. Önnur eru ekki eins opin en flest eru þó tilbúin til að tjá sig bara ef þeim er gefið nægilegt svigrúm og tími til og þau finna að viðmælandinn er tilbúinn til að hlusta. Svo er ekkert sem segir að maður þurfi endilega að hella sér útí hróka samræður því það getur líka verið ágætt að sitja hlusta og virða fyrir sér umhverfið.

Eitt er víst að kaffihús hafa sprottið upp eins og gorkúlur um allan bæ og þó ferðamennirnir séu margir er yfirleitt hægt að finna laust sæti ef vel er að gáð.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd