Hallgrímur og fjölskylda gerðust túristar í vetrarfríinu

Túristarnir Hallgrímur Helgason og dóttir hans við Gullfoss.

Túristarnir Hallgrímur Helgason og dóttir hans við Gullfoss.

Það getur verið svolítill hausverkur fyrir foreldra þegar vetrarfríið í grunnskólum rennur upp. Sumir hafa skipulagt fríið fyrir löngum en aðrir púsla og plástra því svolítið saman eftir hendinni. Þótt fríið hafi verið skipulagt fyrir löngu getur alltaf eitthvað óvænt komið upp á – og þá þarf að vinna út frá því.

Rithöfundurinn og myndlistarmaðurinn Hallgrímur Helgason og fjölskylda hans hafa í fríum farið norður í hús sem fjölskylda hans á í Hrísey. Börnin eru tvö í fjölskyldunni, 11 ára og 13 ára. Stefnan var nú sett á sumarbústaðaferð með fjölskyldu systur Hallgríms og fleiri börnum. Planið breyttist á síðustu stundu strax á föstudeginum þegar eitt barnanna í vetrarfrísferðinni veiktist. Ekkert varð því af ferðinni í bústað. Ekki kom heldur til greina að bruna norður.

 

Börnin vildu sjá meira af Ísland

„Krakkarnir höfðu kvartað yfir því að við færum alltaf bara í Hrísey á sumrin og fengju ekki að sjá annað af Íslandi. Eins og fræga staði sem allir þekkja nema þau,“ segir Hallgrímur. Niðurstaðan varð sú að feta í fótspor ferðamanna með dótturina sem er 11 ára gullna hringinn, skoða Gullfoss og Geysi og það sem tilheyrir.

„Sjálfur var ég spenntur að sjá túrismann og varð ekki fyrir vonbrigðum, ekki heldur þau. Þetta var geysigaman!“ segir Hallgrímur.

 

Gullfoss og Geysir eru málið

Hann deildi upplifun sinni upprifinn á Facebook:

„Vetrarfrí! Golden Circle. Tourist in Iceland. Sáum 4 hveri, 1 foss, 354 Kínverja, 25 Indverja, 202 Kandamenn, 3 frá Costa Rica, 256 Bandaríkjamenn, 17 Breta, 13 Frakka, 4 Dani, 14 Norðmenn, 9 Þjóðverja, 6 Króata og 52 Rússa en engan Íslending, nema stelpurnar í sjoppunni á Þingvöllum. Á Geysi voru líka starfsmennirnir allir erlendir, sem og hér á Hotel Borealis. Í raun leið okkur eins og ferðamönnum í fjarlægu landi, fengum að vera útlendingar í eigin landi og sáum það ferskum augum, það var ekki leiðinlegt.“

hallgrimur-2

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd