
Það er öllum hollt og gott að fara út í náttúruna, hreyfa doldið ryðgaða útlimi útí móa og anda að sér hreinu og góðu lofti.
En eins og fólk ætti að vita núna er samkomubann á Íslandi og hvetja þau Víðir, Þórólfur og Alma landsmenn til að ferðast innanhúss um páskana.
Einar Skúlason er einn öflugasti göngugarpur landsins. Hann stofnaði og bjó til Wapp-ið, sem er alveg frábært forrit. Það er hægt að nálgast í öllum forritasjoppum í símum.

Wapp er stafrænn gagnagrunnur leiðarlýsinga á Íslandi. Í forritinu eru leiðarlýsingarnar um allt land með GPS ferlum og ljósmyndum. Leiðarlýsingum er hlaðið á símann og þær notaðar án þess að vera í gagnasambandi.
Ganga í Reykjavík og Hafnarfirði
Einar og vinir hans í gönguhópnum Vesen og vergangur hvetja fólk til að hreyfa sig og þá með fólkinu sem það umgengst reglulega.
Rétt er að geta þess að Almannavarnir beina þeim tilmælum til fólks að leggja ekki í ferðalög. Hann hvetur því fólk til að halda sig á höfuðborgarsvæðinu í útivist og hreyfingu.
Sem dæmi geti verið gaman að ganga umhverfis Hafravatn og fara á Hafrahlíð í leiðinni. Einnig er góð hugmynd að fara á Stórhól á Grímannsfelli en þar er einmitt farið framhjá hinum fallega Helgufossi.

Styttri leiðir eru til dæmis umhverfis Grafarvoginn á stígunum þar og upplagt að leggja bílnum við Grafarvogskirkju.
Önnur góð hugmynd er að ganga umhverfis Rauðavatn eða Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði.
Hann brýnir fyrir fólki að hvað sem gert er þá þurfi allir að hreyfa sig í hálftíma á dag að lágmarki. Börn þurfi tvöfalt meira. .
Ganga í boði Hafnarfjarðar
Í vikunni var opnuð brandaraganga í Wappinu í samvinnu við Hafnarfjarðarbæ. Þar má finna fallegar og góðar gönguleiðir í Suðurbænum í Hafnarfirði og á tæplega 4 km vegalengd um 27 áningarstaði með samtals 37 bröndurum.

Þetta er leið fyrir unga sem aldna og á sérstaklega vel við um þessar mundir enda hafa allir gott af því að brosa og hlæja um leið og þeir njóta hreyfingar og útiveru og halda tveggja metra fjarlægð við aðra.
Leiðin er ókeypis í Wappinu enda er í hún í boði Hafnarfjarðarbæjar.
Góða skemmtun og deilið þessu að vild!
Auðvelt er að sækja Wappið á Appstore eða Playstore:
Appstore: https://itunes.apple.com/…/a…/wapp-walking-app/id1038050439…
Playstore: https://play.google.com/store/apps/details?id=is.wapp.wapp