
Frisbígolf eða folf er gríðarlega vinsælt sport og má sjá hópa fólks bíða í röðum eftir því að taka þátt í þessum skemmtilega leik þegar sólin skín. Hér má sjá nokkra þeirra leika sér á vel merktum og frábærum frisbívelli í Fossvogsdalnum í Reykjavík.
Ætla má að tugþúsundir spili frisbígolf hér á landi.
Fram kemur á vef Íslenska frisbígolfsambandsins (ÍFS) að fyrsti folfvöllurinn hafi verið settur upp á Akureyri árið 2002. Þá hafi staurar verið notaðir til að kasta í. Fyrsti alvöruvöllurinn hafi verið gerður á Úlfljótsvatni nokkrum mánuðum síðar með heimagerðum körfum úr síldarplasttunnum.
Nú eru vellirnir orðnir tæplega 70 talsins með sérhannaðar körfur á Íslandi. Þeir eru opnir allt árið um kring. Auk þess eru margir minni vellir víða.
Hvar eru folfvellir?
- Garðabæ: Vífilsstaðatúni
- Hafnarfjörður: Víðistaðatún
- Kópavogur: Dalvegur og í Guðmundarlundi
- Mosfellsbæ: Í Ævintýragarðinum
- Reykjavík: Í Fella- og Hólahverfi í Breiðholti, í Fossvogsdalnum, í Grafarholti, Gufunesi í Grafarvogi, á Klambratúni, í Laugardalnum, í Seljahverfi
- Seltjarnarnes: Valhúsahæð
Er folfvöllur í þínu bæjarfélagi?
Þið finnið lista yfir alla frisbívellina á landinu á folf.is.

Ekki smita
Frisbígolfarar þurftu auðvitað að lúta ströngum skilyrðum í samkomubanni eins og aðrir til að hindra mögulega útbreiðslu kórónaveirunnar. Slakað verður á reglunum 4. maí. Folfarar segja slökunina falla vel að frisbígolfi.
Þær reglur yfirvalda sem taka gildi 4. maí að öllu óbreyttu eru:
- Ekki fleiri en fjórir einstaklingar æfa eða leika saman.
- Snertingar eru óheimilar og halda skal tveimur metrum á milli einstaklinga.
- Notkun á sameiginlegum búnaði skal haldið í lágmarki. Annars skal sótthreinsa hann á milli notkunar.
Vinahópar sem spila sér til gaman þurfa að vera meðvitaðir um þær smithættur sem eru til staðar og gera allt sem í valdi þeirra stendur til að draga úr smithættu.
Mælt er með því á folf.is að minna sameiginlega snertingu við folfkörfuna með því að gefa stutt pútt og reikna þau sem eitt kast.
Jafnframt er mælt með 3 metrum á milli spilara.
Það er um að gera og lesa meira um frisbígolf enda frábært að skella diskum í bílinn í ferðalaginu innanlands í sumar.
En hvar eru allir þessir vellir?
Þar eru allar upplýsingarnar.