Það er gaman að leika saman á skemmtilegu leiksvæði. Svæðið í kringum leikskólann Grænuborg við Eiríksgötu á Skólavörðuholti í Reykjavík er eitt þeirra en þar er risastór rennibraut og margt fleira.
Leikskólinn Grænaborg var vígður á holtinu á sumardaginn fyrsta árið 1983. Saga skólans er mun lengri.
Fyrsti leikskólinn
Nokkuð hefur verið fjallað um leikskólann Grænuborg í tengslum við sögu leikskóla á Íslandi. Það gerðu þeir Bergur Felixson í bókinni Leikskóli fyrir alla og Jón Torfi Jónasson sem fjallað hefur ítarlega um þróun leikskóla. Í bókum þeirra er saga Grænuborgar rakin til þess þegar Barnavinafélagið Sumargjöf var stofnað árið 1924 af Bandalagi kvenna. Upphaflegur tilgangur félagsins var að stuðla að almennri umræðu og starfi sem mundi efla velferð barna. Félagið stóð að byggingu og rekstri margra leikskóla. Fyrsta verk Barnavinafélagsins var að starfrækja dagheimili fyrir fátæk börn. Árið 1931 opnaði Barnavinafélagið fyrsta leikskólann á milli Eiríksgötu og Hringbrautar þar sem Landspítalinn stendur nú. Það var leikskólinn Gænaborg. Leikskólinn var í fyrstu aðeins opin á sumrin.
Útiloftsskóli
Starfsemi Grænuborgar byggði á hugmyndafræði þeirra Rachel og Margaret McMillan en þær stofnuðu leikskólann Rachel McMillan Nursery School and Children’s Centre í suð-austur hluta London árið 1914 og er það talinn fyrsti leikskólinn á Englandi. Systurnar störfuðu fyrir Verkamannaflokkinn og létu skólamál sig miklu skipta. Í leikskóla þeirra var lögð mikil áhersla á að gera sem mest úti, leika, sofa og læra og að skapa heilsusamlegt umhverfi fyrir börnin. Hugmyndir þeirra breiddust hratt út. Steingrímur Arason, fyrsti formaður Sumargjafar, kynnist hugmyndum systranna um útiloftsskóla þegar hann var við nám í Bandaríkjunum. Hann fór til London árið 1927 til að kynna sér þessar hugmyndir og stofnaði upp úr því leikskólann Grænuborg árið 1931.
Barnavinafélagið rak Grænuborg til ársins 1978 þegar Reykjavíkurborg tók við rekstrinum.
Ekkert mál að finna leiksvæði
Skemmtileg leiksvæði eru víða í Reykjavík og eru þau öllum opin. Opin leiksvæði eru 256, sparkvellirnir 34, leikskólarnir 85 og skólarnir 45. Þegar leikskólar eru lokaðir síðdegis, um helgar og í sumarleyfum eru leikskólalóðirnar nýttar sem leiksvæði fyrir fjölskyldur ungra barna. Á leiksvæðum leikskólanna eru fjölbreytt tæki og eru foreldrar ungra barna hvattir til að nýta sér lóðir leikskólanna utan vinnutíma þeirra.
Það er frábær hugmynd að leika sér á skemmtilegu leiksvæði.