Gott að stunda fjölskyldujóga í Viðey

Börn geta verið ótrúlega liðug og því henta jóga þeim mjög vel. Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir jógakennari hefur mikla reynslu af því að kenna börnum jóga alveg frá þriggja ára aldri og upp á unglingsaldur.

„Þau sitja bara alveg strax í lótus og geta gert ýmislegt sem ég get ekki. Vegna þess að líkami þeirra býður bara upp á það. Það er ekki komin streita í kroppinn enn þá, en svo eldumst við og byrjum að hafa áhyggjur. Þá hættum við að hreyfa okkur eins mikið, eða ekki eins náttúrlega, og byrjum að vera meira í hausnum og í kyrrstöðuvinnu og þá stirðnum við. En það er rosalega gott að heimsækja innra barnið í sjálfum sér og frelsa aðeins líkamann og hugann,“ segir Arnbjörg, sem hefur lengi leitt fjölskyldujóga.

Arnbjörg ræðir um fjölskyldujóga í viðtali í Fréttablaðinu.

Hún segir:

„Ég lærði fjölskyldujóga úti í Bandaríkjunum og þá er maður að skoða allan aldur og á hvaða aldri er hægt að gera jóga með tilliti til ákveðins hreyfiþroska, hvað henti viðkomandi og svo framvegis,‟ segir hún og bætir við að gong í jóga hafi róandi áhrif.

„Gongið er fyrst og fremst ætlað til að kenna hugarró … Við erum frekar þjálfaðri í að dreifa huganum og hugsa um margt í einu, en í jóga er markmiðið að þjálfa hugann upp með reglulegri ástundun hugleiðslu og gongið hjálpar okkur að setja athyglina BÚMM! á einn stað. Á hljóðið. Og hljóðið kemur vitundinni í svona einingarástand þar sem eru engar áhyggjur. Það er gott að heimsækja þann stað,“ segir hún.

Arnbjörg leiðir fjölskyldujóga úti í Viðey klukkan 13:30 á sunnudaginn 26. júlí 2020. Hún segir Viðey sannarlega fallegan stað til að hugleiða og stunda jóga.

„Við munum reyna á jafnvægi, samhæfingu, öndun og alls konar jógastöður og prófa að hugleiða aðeins. Við gerum líka nokkur jógadýr, vegna þess að börn hafa mjög gaman af dýrum og við sprellum aðeins í leiðinni,“ segir hún.

Mælt er með því í viðtalinu að þátttakendur taki með sér teppi fyrir slökunina og klæði sig eftir veðri.

Meira hér um fjölskyldujóga í Viðey.

Deilið þessu:

Skildu eftir svar

Vinsamlegast láttu rétt nafn og netfang fylgja með athugasemd